141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[20:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er ekki mikið að vöxtum, en er hins vegar þýðingarmikið frumvarp sem við verðum að velta fyrir okkur í ljósi þeirrar stöðu sem annars vegar er uppi í efnahagsmálum og fjárfestingarkostum sem geta mögulega blasað við okkur og hins vegar þurfum við að ræða þetta í samhengi við lífeyrissjóðina og uppbyggingu þeirra.

Nú er það þannig að lífeyrissjóðir á Íslandi eru gríðarlega öflugar stofnanir, einhverjar mikilvægustu stofnanir okkar samfélags. Þegar við ræðum um þá verðum við fyrst og fremst að hafa eitt í huga en það er að lífeyrissjóðir hafa eingöngu eitt hlutverk, eina skyldu og það eru skyldurnar við það fólk sem hefur lagt fjármuni sína inn í þessa sjóði ásamt atvinnurekendum sínum til að búa í haginn fyrir efri árin. Lífeyrissjóðirnir hafa hins vegar tvíþætt hlutverk með höndum, annars vegar að vera ávöxtunaraðili fyrir lífeyri fólks til að nýta við efri árin og síðan hitt, sem mér finnst oft gleymast í þessari umræðu, að lífeyrissjóðirnir eru í eðli sínu samtryggingarsjóðir. Þeir fjármunir sem við leggjum inn í okkar lífeyrissjóði á ævinni eru ekki okkar eign í þeim skilningi að við getum vænst þess að þeir fjármunir skili sér að öllu leyti til baka til okkar af því lífeyrissjóðirnir hafa þetta samtryggingarhlutverk.

Í hverju felst það samtryggingarhlutverk? Jú, lífeyrissjóðirnir eru þannig uppbyggðir að þeim er ætlað að mæta lífeyrisþörf okkar þegar við erum komin á efri ár á lífeyrisaldurinn eftir 67 ára aldur, síðan eru þeir líka þannig hugsaðir að þeir koma til skjalanna þegar þannig stendur á hjá einstökum sjóðfélögum að það fólk hefur til dæmis orðið fyrir örorku á ungum aldri, makamissi eða einhverju slíku. Þá eru þessar greiðslur þannig uppbyggðar að þær ráðast ekki af þeim fjármunum sem viðkomandi einstaklingar hafa lagt inn í þessa sjóði, heldur er það sameiginlegt verkefni okkar allra, lífeyrisþeganna í þessum sjóðum, að takast á hendur að aðstoða það fólk sem verður fyrir tekjuskerðingu af ýmsum ástæðum, til dæmis þeim tveimur sem ég nefndi hér áðan. Þess vegna er samtryggingarkerfi lífeyrissjóðanna uppbyggt svona. Þetta hlutverk er mjög mikilvægt. Hugsum okkur einstakling sem verður fyrir örorku á unga aldri og hefur ekki eðlilegar atvinnutekjur, fær sína framfærslu, að minnsta kosti að hluta til, út úr lífeyrissjóðunum. Þetta hlutverk er þess vegna mjög mikilvægt og spilar saman með okkar almannatryggingakerfi.

Að mínu mati hefur í meginatriðum tekist mjög vel til við uppbyggingu lífeyrissjóðanna. Það er auðvitað mjög margt sem við getum gagnrýnt í þeirra fari. Við getum gagnrýnt það að á fyrsta áratug þessarar aldar hafi fjárfestingar þeirra ekki skilað eðlilegri arðsemi eftir bankahrunið. Það kom fram að lífeyrissjóðirnir urðu fyrir gríðarlega miklu tapi eins og við þekkjum. Það breytir því ekki að lífeyrissjóðirnir hafa verið að eflast mjög mikið á undanförnum árum og ég held að það sé rétt að fara með nokkrar tölur í því sambandi.

Á árunum 1998–2012 fimmfölduðust eignir lífeyrissjóðanna, jukust úr 407 milljörðum kr. í tæpa 2.100 milljarða kr. Það jafngildir því að eignir þessara sjóða hafi vaxið um 14,6% á ári. Nú er talið að eignir þessara sjóða, hrein eign til greiðslu lífeyris, sé í kringum 2.500 milljarða kr. sem er rúmlega tvöföld þjóðarframleiðsla okkar. Þessar eignir voru sem dæmi í árslok 2011 128,7% af landsframleiðslu, en nýlegustu tölur benda til þess að þessar eignir lífeyrissjóðanna hafi um síðustu áramót verið um 140% af landsframleiðslunni. Þetta eru gríðarlega miklar tölur. Í fyrsta lagi eru þær svona mikilvægar við það hlutverk sem lífeyrissjóðunum er ætlað, en skapa líka ákveðinn vanda sem þeim sem eru stjórnendur lífeyrissjóðanna er lagður á herðar, sem er það að ávaxta þetta mikla fé.

Þarna skiptir óskaplega miklu máli að vel takist til, vegna þess að ávöxtun fjárins mun ráða því hvernig lífeyrissjóðirnir geti axlað þá skyldu sem er hlutverk þeirra númer eitt, tvö og þrjú, að ávaxta þetta fé lífeyrisþeganna, fólksins sem hefur greitt inn í lífeyrissjóðina. Ef illa tekst til um lífeyrisgreiðslurnar eru lögin einfaldlega þannig að ef lífeyrissjóðirnir standa ekki undir þeirri ávöxtun sem þeir þurfa að standa undir ber þeim lagaleg skylda til að skerða lífeyrisréttindi fólks. Það er nákvæmlega það sem lífeyrissjóðirnir urðu að gera í kjölfar bankahrunsins 2008. Þó ávöxtunin á síðasta ári hafi verið svona góð eins og við þekkjum var þetta engu að síður reynslan sem menn urðu að ganga í gegnum á tímanum eftir árið 2008.

Þessir lífeyrissjóðir sem eru almennu sjóðirnir eru auðvitað öðruvísi settir en lífeyrissjóðir ríkisins. Á bak við lífeyrissjóði ríkisins er ríkisábyrgð og ríkið hefur ekki staðið við þær skuldbindingar að greiða inn í þessa sjóði. Ríkisvaldið stendur hins vegar á bak við sjóðina og er ábyrgt fyrir því að greiða út lífeyrinn án skerðingar þegar þörfin kallar hverju sinni.

Setjum nú þetta mál í aðeins meira samhengi. Það kemur fram í greinargerð sem fylgir frumvarpinu að talið sé að ávöxtunarþörf sjóðanna á ári sé á bilinu 100–130 milljarðar kr., þ.e. það sem kemur inn í sjóðinn á hverju ári er þessi tala, 100–130 milljarðar kr., sem gerir það að verkum að þessir sjóðir þurfa sem sagt að ávaxta og finna ávöxtunarmöguleika fyrir 100–130 milljarða kr. á ári. Þetta svarar til þess, svona gróflega talið, að fjármunirnir sem þurfa að leita sér ávöxtunar á hverjum tíma, til viðbótar við það sem fyrir er í sjóðunum, eru í kringum 10 milljarðar kr. á hverjum einasta mánuði. Það eru 500 millj. kr. á hverjum virkum degi sem stjórnir sjóðanna þurfa að finna ávöxtun fyrir, það er raunverulega bakgrunnurinn að því máli sem við erum hér að ræða um.

Nú þekkjum við að aðstæður í landinu eru mjög sérstakar, við búum við mjög ströng gjaldeyrishöft og ávöxtunarmöguleikarnir eru ekkert mjög miklir. Það er mikið framboð af fjármunum, ekki síst frá lífeyrissjóðunum, eins og ég var að nefna, 500 milljónir á hverjum virkum degi sem þeir þurfa að finna nýja ávöxtun fyrir. Þar er ekki um mjög auðugan garð að gresja. Ávöxtunarmöguleikar á ríkisskuldabréfum fara eðlilega minnkandi og fjárfestingartækifæri innan lands eru mjög takmörkuð. Við sjáum í þeim hlutafjárútboðum sem hafa átt sér stað á skráðum hlutabréfum í Kauphöll Íslands að lífeyrissjóðirnir hafa verið mjög stórvirkir. Þeir halda utan um þessa miklu sjóði og hafa séð sér færi á því að ávaxta þessa fjármuni með því að leggja fé í þessar fjárfestingar í skráðum fyrirtækjum. (Gripið fram í.)

Eins og við vitum var það þannig fyrir bankahrunið 2008 að þessir sjóðir voru að leita ávöxtunar víða, bæði erlendis og síðan í hlutabréfum í skráðum fyrirtækjum. Við sáum líka reynsluna sem þar varð. Þau fyrirtæki fóru í mjög mörgum tilvikum á hausinn. Bankakerfið okkar eins og það lagði sig og var langsamlega viðurhlutamest á hlutabréfamarkaði, þá alveg sérstaklega á skuldabréfamarkaðnum. Þar gengu skuldabréf líka kaupum og sölum og þar á meðal skráð verðbréf sem voru í eigu fyrirtækja sem störfuðu á markaði. Margir þeirra sem þurftu að ávaxta laust fé gripu til þess ráðs að kaupa þessi skuldabréf sem nægar tryggingar voru taldar fyrir. Þessi fyrirtæki voru að skila glæsilegum ársuppgjörum eins og við vitum með háu veltufjárhlutfalli, greiðslugetu, og þeir sem voru að kaupa þessi skuldabréf gerðu það í þeirri góðu trú að með því að fyrirtækin væru að selja þessi skuldabréf, skráð bréf, í eigu fyrirtækja sem voru skráð á markaði, töldu menn sig vera býsna örugga með sig.

Þessi starfsemi varð til dæmis til þess að margir sparisjóðir fór mjög illa, ekki vegna þess að þeir hafi sýnt einhvern glannaskap, heldur vegna þess að þeir voru að fjárfesta í þessum skuldabréfum, skráðum skuldabréfum í eigu fyrirtækja sem voru skráð á markaði. Þessir aðilar gerðu það í góðri trú í þeirri von að þeir gætu verið nokkuð tryggir með eignir sínar sem voru í formi slíkra skuldabréfa.

Það er athyglisvert í þessu sambandi að í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins, í athugasemd hérna við 3. gr. frumvarpsins, kemur fram að fyrir bankahrunið 2008 hafi heimildir lífeyrissjóða til að kaupa óskráð verðbréf verið 10%. Nú veit ég ekki nákvæmlega, man það reyndar ekki alveg, hvort lífeyrissjóðirnir á þessum tíma hafi nýtt sér að fullu að kaupa óskráð verðbréf allt að 10% af sínum eignum. Sem afleiðing af bankahruninu haustið 2008 var gerð sú lagabreyting að þessi heimild sjóðanna var hækkuð um helming, úr 10% í 20%. Vakin er á því athygli að við hrunið hafi lífeyrissjóðakerfið orðið fyrir miklu tjóni, sérstaklega urðu fjárfestingar þeirra í ýmsum skráðum bréfum, verðbréfum, bæði hlutabréfum og skuldabréfum, illa úti. Þetta er nokkuð athyglisvert. Þá virðist mér staðan hafa verið sú að vegna þess að skráðu bréfin hurfu nánast út af markaðnum í mjög miklum mæli hafi staðið eftir stærra hlutfall af heildareignum lífeyrissjóðanna í óskráðum bréfum sem hafi orðið þess valdandi að þessi heimild var hækkuð upp í 20%.

Stærsta atriði þess frumvarps sem við ræðum nú er einmitt það að hækka nú enn heimildirnar í sjóðunum til þess að kaupa verðbréf í óskráðum fyrirtækjum úr 20% í 25%. Það vekur strax ákveðnar spurningar. Þegar við erum að stíga þetta skref upp í 25% verðum við að velta aðeins fyrir okkur þróuninni og spyrja okkur spurninga í þessum efnum — 10% fyrir árið 2008 og fram á árið 2008, 20% frá árslokum 2008 og nú erum við að tala um að fara með þetta upp í 25%. Rökin eru auðvitað augljós. Það er ekki margra kosta völ við fjárfestingar. Ég vakti athygli á því hér áðan að finna þyrfti ávöxtunarmöguleika fyrir 500 millj. kr. á hverju einasta degi, hverjum einasta virka degi sem lífeyrissjóðirnir starfa árið um kring, þetta ár, næsta ár o.s.frv., þannig að það er greinilega ekki mjög margra kosta völ. Ávöxtun á innstæðum í bönkum er lág, miklu lægri en ávöxtunarkrafan sem lífeyrissjóðirnir eru að gera. Það er því ekkert óeðlilegt að lífeyrissjóðirnir velti því fyrir sér hvort ekki þurfi að opna á frekari möguleika. Þá eru ekki margir kostir og því horfa menn til þessara óskráðu bréfa.

Nú sýnist mér að reynslan frá því í bankahruninu bendi til þess að það sé síst af öllu áhættumeira, ef menn vanda sig, að kaupa slík verðbréf, hvort sem það eru hlutabréf eða skuldabréf í óskráðum fyrirtækjum. Frá sjónarhóli lífeyrissjóðanna hljóta menn þó fyrst og fremst að vera að velta fyrir sér öryggi þessara fjárfestinga. Þess vegna kemur strax upp í hugann með hvaða hætti lífeyrissjóðirnir mundu nálgast þetta. Hver verður ávöxtunarkrafa þeirra við kaup á óskráðum bréfum, hvort sem um er að ræða verðbréf eða skuldabréf eða hlutabréf? Má ekki búast við því að ávöxtunarkrafa þeirra verði talsvert há? Munu þeir ekki gera miklar arðsemiskröfur einmitt í ljósi þess að ákveðin áhætta kunni að vera í því fólgin að kaupa í litlum fyrirtækjum, meðalstórum fyrirtækjum sem ekki eru skráð á markaði sem ekki lúta því aðhaldi sem Kauphöllinni er ætlað að veita og Fjármálaeftirlitið að tryggja með eftirliti sínu? Þetta eru auðvitað allt saman spurningar sem koma upp.

Það breytir því ekki að ég er fyrir fram fremur jákvæður fyrir þessari breytingu, bæði frá sjónarhóli lífeyrissjóðanna sem þarna geta verið að finna sér ávöxtunarleið á tímum sem slíkar leiðir eru vandfundnar. Jafnframt hlýtur maður líka að líta þannig á að lífeyrissjóðirnir hafi ákveðnar skyldur og það hafi ákveðið gildi fyrir lífeyrissjóðina að geta fjárfest í þessum litlu fyrirtækjum. Þar fer atvinnusköpunin fram, þar verða flestu störfin til, þessi fyrirtæki skortir oft á tíðum fjármagn.

En spurningin sem ég tel að þurfi að svara, og verður væntanlega reynt að leita svara við í efnahags- og viðskiptanefnd, er hvað ætla megi að ávöxtunarkrafan verði almennt há af hálfu lífeyrissjóðanna í slíkum bréfum sem munu auðvitað lúta annars konar lögmálum en ávöxtunarkrafan sem kallað er eftir í skráðum bréfum, hvort sem það eru hlutabréf eða skuldabréf.