141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um málefni lífeyrissjóðanna og þær breytingar sem verið er að leggja til, þ.e. að rýmka heimildir þeirra til að kaupa í óskráðum félögum. Ég ætla reyndar að geyma það viðfangsefni til ræðu minnar hér á eftir.

Meðal annars er í 1. gr. talað um lífeyrissjóð sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga en nú er það svo að ekkert hefur verið gert í því að taka á þeim skuldbindingum sem A- og B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er gagnvart skattgreiðendum. Hallinn á B-deildinni er um 400 milljarðar kr. og á A-deildinni 57 milljarðar kr., þ.e. hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, 457 milljarðar kr.

Reynt var að bregðast við þessu fyrir hrun með því að greiða reglulega af hálfu ríkissjóðs inn í lífeyrissjóðina til að minnka þessar skuldbindingar en ekkert er minnst á það í ríkisreikningi að skattgreiðendur skuldi þarna 457 milljarða kr. Mér finnst það þá ekki gefa rétta mynd af stöðu ríkissjóðs í dag. Ég vil inna hv. þingmann eftir því, vegna þess að við erum ekki að tala um neinar smáupphæðir hér, 450 milljarða eða þar um bil, hvort hann hafi ekki áhyggjur af þeim skuldbindingum sem virðast hlaðast upp frá ári til árs og hvort hann sjái það fyrir sér í framtíðinni að óhjákvæmilegt sé að taka á þessu viðfangsefni og kannski með það að markmiði að reyna þá um leið að jafna lífeyrisréttindi landsmanna.