141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fór vísvitandi ekki inn á þessar brautir í ræðu minni vegna þess að hér er um risavaxið viðfangsefni að ræða sem fellur strangt til tekið utan gildissviðs þessa frumvarps. Það breytir því ekki að við stjórnmálamenn getum ekki horft fram hjá því að þarna er um að ræða viðfangsefni sem við þurfum að takast á við á næstu árum. Segja má að þegar veigamiklar breytingar voru gerðar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, fyrir einum og hálfum áratug eða svo, hafi menn annars vegar ætlað að vinna á uppsöfnuðum eldri vanda en hins vegar að byggja kerfi sem gæti orðið, eins og vinsælt er að segja í dag, sjálfbært, þ.e. gæti staðið undir sér sjálft með svipuðum hætti og lífeyriskerfið á hinum almenna markaði gerir.

Nú sýnist manni að reynslan sé því miður sú að það hafi ekki tekist, alla vega ekki tekist sem skyldi. Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson bendir hér á þá hefur ríkið, fyrst og fremst ríkið, sem launagreiðandi ekki tryggt þá fjármögnun hins opinbera lífeyriskerfis sem nauðsynleg væri til að það gæti staðið undir sér sjálft og gatið er alltaf að stækka. Þarna er því um að ræða vandamál sem þarf að takast á við á komandi árum.

Ég ætla ekki að hætta mér inn á svið kjarasamninga opinberra starfsmanna varðandi lífeyrisrétt þeirra en það er hins vegar ljóst að ef ekki verður með einhverjum hætti tekið á þessu þá erum við að tala um að innan einhvers tíma, einhverra ára eða í mesta lagi áratuga, þá stöndum við frammi fyrir svipuðum vanda og er fyrir hendi víða í Evrópu (Forseti hringir.) vegna fjármögnunar lífeyrisgreiðslna.