141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér finnst einfaldlega um svo stórt mál að ræða, þegar við ræðum málefni lífeyrissjóðanna, að óhjákvæmilegt sé að ræða þennan hluta málsins, sérstaklega vegna þess að þessar skuldbindingar birtast ekki í ríkisreikningi. Þær eru „faldar“ þar og sýna þar af leiðandi ekki rétta mynd af stöðu ríkissjóðs. Það var kannski þess vegna sem ég vildi beina þessari fyrirspurn til hv. þingmanns.

Mig langar í seinna andsvari mínu að spyrja hv. þingmann, út af rýmkun á heimildum lífeyrissjóðanna til að kaupa í óskráðum félögum, hvort það sé þá ekki ljóslifandi dæmi þess að mönnum hafi ekki tekist í kjölfar hrunsins að byggja upp íslenskan hlutabréfamarkað. Það er alveg ljóst að með því að lífeyrissjóðir kaupi í óskráðum félögum þá er gegnsæið ekki eins mikið eins og félög sem þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og eru skráð í Kauphöll Íslands, hvort ekki sé nauðsynlegt að ráðast í einhvers konar átak til að efla íslenskan hlutabréfamarkað. Ég velti því fyrir mér hvort menn eigi að stuðla að nýju að einhverjum aðgerðum til að hvetja fólk til sparnaðar, mögulega með einhverjum skattafslætti. Að sjálfsögðu þurfum við að draga lærdóm af því hruni sem varð og af einhverjum brotalömum í regluverkinu en það er alveg ljóst að það hlýtur að vera öllum til hagsbóta að sem flest fyrirtæki, alla vega af stærri gerðinni, séu skráð í Kauphöllinni þannig að viðhlítandi upplýsingar um reksturinn komi þar inn. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé mér sammála um að efla þurfi íslenskan hlutabréfamarkað þannig að lífeyrissjóðir þurfi þá ekki í eins miklum mæli að kaupa í óskráðum félögum.