141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég vil velta einu upp áður en ég svara þessu: Hver er munurinn á því að lífeyrissjóðir láni orkufyrirtækjum eða eigi í þeim?

Ef illa gengur illa hjá viðkomandi orkufyrirtæki, hvað gerist þá? Hvað ef við ætlum núna að fara í nýjar virkjanir og við þurfum fjármagn í það? Er óeðlilegt að lífeyrissjóðirnir sem lána í það fái að njóta arðsins ef af arði verður? Ég held að í öllum tilfellum hafi svo verið með virkjanir á Íslandi, sem betur fer.

Eins og ég nefndi skil ég að menn vilji ekki að einhverjir einstaklingar komist í þá stöðu að geta átt orkufyrirtæki hér eða einstakar virkjanir, í það minnsta ekki þær sem selja til landsmanna beint og ég er ekki að tala um það. En ég verð að viðurkenna að þegar ég lít á virkjanir, ég tala nú ekki um þær sem selja til stóriðju, sé ég fjárfestingar sem geta skilað arði til eigenda sinna um áratugi, jafnvel árhundruð. Við vitum það eftir þau áföll sem lífeyrissjóðirnir hafa orðið fyrir að það er svo sannarlega ekkert öruggt í þessu. Ég sé þess vegna mjög góð tækifæri fyrir íslenska lífeyrissjóði að ávaxta peninga sína til góðs fyrir sjóðfélaga. Ég held að það væri afskaplega óskynsamlegt að ræða það ekki málefnalega, (Forseti hringir.) án æsings, hvort þeir gætu átt hlut í slíkum fyrirtækjum eða í virkjunum.