141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna greinir mig og hv. þingmann á. Það er ekkert athugavert við það að lífeyrissjóðirnir komi með fjármagn inn í einstök fyrirtæki og einstakar virkjanir í formi lánsfjár eða með öðrum sambærilegum lánasamningum. En með beinum eignarhlut í fyrirtæki eins og Landsvirkjun, gulleggi þjóðarinnar sem áætlað er að muni skila tekjum í ríkissjóð, tugum milljarða innan ekki svo margra ára — það er annað mál. Ég verð að segja að það hryggir mig mjög ef þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum málum. Ég vil ítreka að Framsóknarflokkurinn ályktaði sérstaklega um þetta á flokksþingi sínu þar sem lagst var algerlega gegn því að Landsvirkjun yrði seld, hvort heldur til einkaaðila eða lífeyrissjóðanna. Landsvirkjun á að vera í eigu ríkissjóðs eins og hún er í dag.

Það hryggir mig mjög ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera það að stefnu sinni, til að liðka fyrir fjárfestingum fyrir lífeyrissjóðina sem er vissulega merkilegt, að við seljum það gullegg þjóðarinnar sem orkufyrirtækið Landsvirkjun er til lífeyrissjóðanna. Ég fylgdist mjög vel með þessu máli á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem ég er mikill áhugamaður um að Landsvirkjun verði áfram í eigu hins opinbera. Það gladdi mig, svo að ég segi það, að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn tók þetta atriði út úr ályktunum sínum áður en það var afgreitt.

Ég vil hvetja hv. þingmann til að snúa af þessari villubraut en um leið vera opinn fyrir því að skoða hvernig við getum á öðrum sviðum gert lífeyrissjóðunum mögulegt að fjárfesta í íslensku samfélagi. Ég hef eins og hv. þingmaður áhyggjur varðandi það fjármagn sem lífeyrissjóðirnir þurfa að koma í ávöxtun. (Forseti hringir.) En Landsvirkjun eigum við ekki undir nokkrum kringumstæðum að selja og ég vona að hv. þingmaður sjái að sér og við getum orðið sammála um þetta.