141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[21:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjárfestingar lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulífi eru bara mjög vandmeðfarnar. Fjárfestingar Framtakssjóðs til dæmis hafa verið umdeildar, þrátt fyrir að ég viti og efist ekkert um að þeir sem eru þar í forsvari hafi reynt að vanda sig eins og hægt er og þeir hafa aðeins 5 milljarða til ráðstöfunar — þeir geta farið í nokkra tugi milljarða — sem er lítið hlutfall af heildareignum sjóðanna. Þetta hefur vægast sagt verið umdeilt enda kemur þar algjör risi inn á markaðinn og keppir við mjög litla aðila. Það er því ekki margt sem lífeyrissjóðirnir, sem ég endurtek að eru í eigu okkar allra, þeir eru í eigu sjóðfélaga, meira að segja er stór hluti lífeyrissjóðanna með ábyrgð skattgreiðenda, geta fjárfest í.

Það eru nú fleiri fyrirtæki en Landsvirkjun, þrátt fyrir allt mun Orkuveita Reykjavíkur skila miklum tekjum og arði til eigenda sinna á næstu áratugum og ég veit ekki um neitt orkufyrirtæki á Íslandi eða neinar virkjanir sem hafa orðið úreltar, þær hafa allar staðið við sitt þó að þær hafi verið mjög lengi til. En gefum okkur að lífeyrissjóðirnir geti ekki komið sem beinn eigandi inn í Landsvirkjun — það er enginn að tala um að gefa neitt, ég veit ekki til þess að neinn sé að tala um það, því að menn þurfa að borga rétt verð fyrir það — hvað þá með nýjar virkjanir, hvernig eiga menn að fjármagna þær?

Ef orkufyrirtækin eru það skuldsett að þau geta ekki tekið lán … (Gripið fram í: Það er önnur umræða.) Nei, það er ekki önnur umræða, það er nákvæmlega sama umræðan. Hvernig ætla menn að gera það þá? (Gripið fram í.) Ætla menn að halda áfram að setja ríkisábyrgð á þau lán? Það er stóra málið. Við getum verið með það vandamál að orkufyrirtækin geti ekki tekið lán og lífeyrissjóðirnir sem eru í eigu almennings geti ekki ávaxtað sig og þá kemur reikningurinn á ríkið. Við erum með orkufyrirtæki sem geta ekki tekið lán og við erum með lífeyrissjóði sem geta ekki fjárfest. Er engin leið að finna flöt sem allir geta sætt sig við? (Forseti hringir.) Þetta snýst allt um það sama, um fólkið í landinu. Ef lífeyrissjóðirnir geta ekki fjárfest, ávöxtunin er ekki nógu góð, kemur það niður á Tryggingastofnun (Forseti hringir.) og það eru skattgreiðendur sem greiða þann reikning. (Gripið fram í.)