141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Að undanförnu hefur borið á umræðu um að ekki hafi verið veittir nægilegir fjármunir til að ljúka þeim rannsóknum sem Alþingi ákvað að ráðast í, annars vegar á Íbúðalánasjóði og hins vegar á falli sparisjóðanna. Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að mun hærri upphæð hefði þurft til en ákveðin var á fjárlögum og fjárlaganefnd mæltist til að sett yrði í verkefnið. Ég tel rétt að leiðrétta þennan misskilning. Fjárlaganefnd varð við öllum þeim beiðnum sem Alþingi óskaði eftir til að ljúka þessum tveim rannsóknum, samtals upp á 78 milljónir auk þess sem 25 milljónir voru settar til viðbótar í nýja rannsókn sem Alþingi ákvað að ráðast í á einkavæðingu bankanna í lok síðasta árs.

Á fjáraukalögum 2012 var einnig lagt til af hálfu fjárlaganefndar og samþykkt var af Alþingi að veita 190 milljónir í þær rannsóknir sem eru í gangi þ.e. á Íbúðalánasjóði og sparisjóðunum. Fjárlaganefnd og Alþingi hefur því orðið við öllum beiðnum þingsins varðandi fjárframlög til þessara tveggja rannsókna, svo að það sé alveg skýrt. Það finnast engin gögn í okkar fórum, í það minnsta ekki í fjárlaganefnd, þar sem óskað hefur verið eftir hærri upphæð og það er ekki venja fjárlaganefndar að veita hærri upphæðir en beðið er um til tiltekinna mála.