141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er góð spurning hvernig við ætlum að verja síðustu dögum þingsins og hvaða mál skipta raunverulega máli. Eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi er hér leikrit í gangi sem leiðir til þess að góð mál fást ekki rædd en lítilsverð mál fljúga síðan í gegn án umræðu.

Ummæli sjálfstæðismanna um skattamálin eru áhyggjuefni, að þingmenn séu farnir að gefa því undir fótinn að það geti verið réttlætanlegt að svíkja undan skatti vegna þess að skattkerfið sé orðið svo flókið. Þeir eru farnir að taka undir með einhverjum gestum í efnahags- og viðskiptanefnd um það mál. Ég heyrði hv. þm. Bjarna Benediktsson tala í svipaða veru á Sprengisandi um helgina þar sem hann sagðist vilja afnema þrepaskiptingu skattkerfisins. Það þýðir að þar með vilja menn afnema jöfnunaráhrifin sem tvímælalaust hafa komið í ljós við þá þrepaskiptingu sem er nú við lýði í skattkerfinu.

Þeir vilja líka afnema veiðileyfagjaldið [Kliður í þingsal.] og þar með taka sjálfstæðismenn og hafa lýst því yfir — (Gripið fram í: Það er langt eftir.) hv. formaður Sjálfstæðisflokksins sagði á Sprengisandi um helgina (Gripið fram í.) að menn vildu afnema veiðileyfagjaldið — [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Í núverandi mynd.) í núverandi mynd (Gripið fram í: Veiðigjaldið …) og þar með vilja sjálfstæðismenn taka arðinn af þjóðarauðlindinni frá fólkinu. Þeir vísa í eldra veiðileyfagjald sem var áður við lýði. Það veiðileyfagjald var eins og allir vita málamyndagjörningur og ekkert veiðileyfagjald. Þeir vilja breyta rammaáætlun og hafa heitið því. Þeir vilja heldur ekki nýja stjórnarskrá. Þeir vilja ekki viðurkenna umboð þess ríkisstjórnarmeirihluta sem nú situr á Alþingi — nema kannski þeim snúist hugur núna eftir að vantraustið var fellt í gær.

Það er auðvitað áhyggjuefni að menn (Forseti hringir.) skuli ætla að færa hér allt aftur til fyrra horfs því að ef marka má málflutning sjálfstæðismanna hér þessa dagana (Forseti hringir.) vilja þeir endurstilla á árið 2007. Það er alvarlegt áhyggjuefni. (Gripið fram í: You ain't seen nothing yet.) [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum og biður þingmenn um að gefa ræðumönnum (Gripið fram í.) hljóð og virða tímamörk. )