141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hygg að ef hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir væri ekki alltaf í einhverjum flugvélum kæmist hún að því að við erum búnir að margkalla eftir því að mál okkar varðandi heimilin, fyrirtækin og atvinnulífið yrðu afgreidd út úr nefndum þingsins, (Gripið fram í: … forseti …) en hv. þingmaður og aðrir þingmenn stjórnarliðanna hafa ekki haft áhuga á að afgreiða þau mál út jafnvel þó að þau skipti mestu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Þetta er óttaleg vitleysa sem hv. þingmaður ber á borð fyrir okkur.

Út af þessari skattaumræðu langar mig að benda á að mér var bent á að vegna aðhaldsaðgerða hefur starfsmönnum við skatteftirlit verið fækkað. Við hljótum að velta fyrir okkur hvort það sé skynsamleg leið ef það er verið að svíkja stöðugt meira undan skatti.

Mig langar að vekja athygli á viðtali Baldurs Arnarsonar blaðamanns við Ásgeir Jónsson hagfræðing í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram, sem við kannski öll vitum, að það er of mikið peningamagn í umferð í íslensku hagkerfi sem er vegna þess að frá því að bóluhagkerfið var í gangi hafa menn ekki náð að vinna það niður. Hættan er sú að peningamagnið muni leiða til annarrar bólu og annars hruns. Peningar leita núna í fjárfestingar sem þeir komast í, fasteignafjárfestingar og annað slíkt. En hver er lausnin? Lausnin er væntanlega sú sem margir hafa talað fyrir eða í það minnsta hvet ég til þess að hún verði skoðuð mjög vandlega og það er að færa peningaprentunina, valdið á því að stjórna peningamagninu í umferð, frá viðskiptabönkunum inn í Seðlabankann. Það er sú leið sem Frosti Sigurjónsson og fleiri sem standa að betra peningakerfi hafa talað fyrir. Mér finnst einsýnt að ef við ætlum að komast hjá því að heimilin og fyrirtækin í landinu lendi aftur í hruni sé rétt að skoða þær tillögur mjög vandlega. Ég hvet alla til að opna hug sinn fyrir þeim hugmyndum sem þar eru settar fram.