141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt um forgangsröðun í þingstörfum. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði að verkefni okkar hér væri að gera gagn en ekki þvælast fyrir. Undir það get ég tekið heils hugar. Ég vildi óska þess að þetta hefði verið það sem ríkisstjórnin hefði haft í forgrunni á þessu kjörtímabili. Þá hefði hún kannski ekki þvælst fyrir atvinnuuppbyggingu úti um allt land. Hún hefði ekki þvælst fyrir þegar til stóð að leigja út skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún hefði kannski ekkert þvælst fyrir með því að setja Suðvesturlínu í sameiginlegt umhverfismat fyrir tveimur árum til að hafa neikvæð áhrif á uppbyggingu álvers í Helguvík. Hún hefði kannski ekki þvælst fyrir orkunýtingu í neðri hluta Þjórsár.

Hún hefði kannski ekki þvælst fyrir í öllum þeim fjölmörgu málum sem snerta hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talar um að hér dagi góð mál uppi og nefnir sérstaklega litla kvótamálið. Hún spyr: Af hverju er fólk að stoppa litla kvótamálið sem hefur áhrif í byggðum landsins? Þá vil ég spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur: Hvað ætlar hún að gera við stóra kvótamálið? Gæti verið að það en ekki stjórnarandstaðan væri að þvælast fyrir hugsanlega jákvæðum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sem hægt væri að ná samstöðu um? Gæti það verið það að þessi ríkisstjórn forgangsraðar ekki rétt? Þessi ríkisstjórn ætti að byrja á því núna þegar fimm, eða jafnvel bara fjórir, dagar eru eftir af þinginu að fara yfir listann, skoða hvaða mál eru brýn, aðkallandi og áríðandi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Tökum þau mál, stjórnarandstaðan mun ekki þvælast fyrir þeim, og klárum þau. Annars er það ótrúlega (Forseti hringir.) aumkunarvert af ríkisstjórn sem gumar sig af því að hafa fengið mælingu í gær sem meirihlutastjórn að kenna stjórnarandstöðunni um (Forseti hringir.) að koma ekki málum í gegn. Er ekki meirihlutastjórn í landinu, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir? Á ekki að koma (Forseti hringir.) málunum fram í krafti atkvæðavægis? (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Málþóf.) Nei, frú forseti, nú skulum við forgangsraða (Forseti hringir.) rétt, sinna þeim málum sem brenna á fólki [Kliður í þingsal.] og látum önnur liggja..