141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra ummæla og orða sem hér féllu um stóriðjuna segi ég að ég hlakka til að fylgjast með ræðuhöldum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur þegar við munum ræða hér áfram um stóriðjuverið á Bakka og þá starfsemi sem þar er verið að leggja upp með.

Undanfarna daga hafa komið inn til þingsins fjölmörg svokölluð fyrstuumræðumál. Mikil áhersla hefur verið lögð á það af hálfu ríkisstjórnarliðsins að þau mál kláruðust og kæmust til nefnda. Fyrir eru hjá nefndum gríðarlega mörg mál sem á eftir að setja aftur til 2. umr. og einnig til 3. umr. Málafjöldinn er slíkur að það er útilokað að það sé hægt að klára þetta. Samt sem áður erum við að fást við það, síðast í gær, að setja mál í gegnum 1. umr. til að þau kæmust til nefnda. Svo þarf maður að sitja í þingsalnum og hlusta á stjórnarliða tala um að það sé verið að koma í veg fyrir að mál klárist hér. Hvers lags endaleysa er þetta?

Það sem við höfum beðið um aftur og aftur er að ríkisstjórnarliðið komi til okkar og segi: Hér eru þau mál sem við leggjum áherslu á og viljum klára. (Gripið fram í.) Við höfum fengið slíkan lista frá stjórnarliðum upp á margar blaðsíður þar sem lá alveg fyrir að það var algjörlega óraunhæft og útilokað að klára þann lista. Hvers vegna í ósköpunum getur ríkisstjórnarliðið ekki bara sagt: Hér eru þau mál sem við leggjum áherslu á að klárist? Í staðinn bætast við á hverjum degi ný mál sem eiga eftir að fara í gegnum nefndir og umsagnir og svo eru mál sem allir vita að verða ekki kláruð, eins og almannatryggingamálið sem mun taka þrjár vikur í umsögn. (Forseti hringir.) Svo ætlast menn til þess að þeir séu teknir alvarlega í umræðum um þessi mál. Menn verða aðeins að átta sig á því að tíminn er skammur og það krefst forgangsröðunar. (Forseti hringir.) Það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í því máli, það er alveg víst. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)