141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, auðvitað á atkvæðastyrkur að ráða á Alþingi um það hvaða mál fara í gegn og hver ekki. Það verður náttúrlega ekki gert nema mál komist í atkvæði. Hér stunda menn það daginn út og daginn inn að þvælast fyrir því að vilji þingsins fái að koma fram, hvort sem hann er jákvæður eða neikvæður. Menn þvælast fyrir því að mál sem skipta miklu máli komist til atkvæða. Það er alveg rétt að það á ekki að vaða yfir minni hlutann en minni hlutinn á heldur ekki að kúga meiri hlutann. Það er ekki neitt lýðræði í því.

Mig langar til að segja frá fundi sem við áttum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun þar sem við fengum tvo góða gesti, útlendinga, Bruno Kaufmann og Daniel Schily, sem eru sérfræðingar báðir tveir í beinu lýðræði. Það var enginn frá Sjálfstæðisflokknum og það var enginn frá Framsóknarflokknum (Gripið fram í: Ég var á öðrum …) til að hitta þessa menn. (Gripið fram í: Ég var í allsherjarnefnd.) Það var enginn frá hvorugum flokknum. Varamenn geta sótt fundi ef þannig ber undir. Þetta var fróðlegur og skemmtilegur fundur. Það var mjög merkilegt hvernig þessir menn töluðu. Okkur hefur verið sagt að við búum við slíkt stjórnkerfi að beint lýðræði henti okkur ekki. Alls staðar þar sem beint lýðræði hefur verið innleitt hefur verið sannað að þetta er rangt, beint lýðræði hefur alls staðar sannað að fólk tekur þátt og að það skiptir fólk máli hvað er gert. Því miður missa (Forseti hringir.) þeir fulltrúar sem veljast inn á samkundu eins og þessa alltaf tengslin við fólkið fyrir utan, (Forseti hringir.) fólkið sem kýs þá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)