141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Við tókum frumvarpið inn í nefndina að nýju milli 2. og 3. umr. að beiðni fulltrúa Sjálfstæðisflokksins til að fara sérstaklega yfir tvö atriði, ræða nánar um útvarpsgjaldið og þá fyrirætlan sem kemur fram í frumvarpinu um að útvarpsgjaldið renni að fullu til Ríkisútvarpsins lögum samkvæmt og hitt atriðið varðaði umræðu um þær auglýsingatakmarkanir sem koma fram í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans.

Inn á fundinn bárust nýjar upplýsingar um fjárhagsleg áhrif frumvarpsins sem er rétt að vekja athygli þingheims á. Þær upplýsingar sem gengið er út frá varðandi tekjuáhrif frumvarpsins hafa nokkuð breyst frá því frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fram samhliða frumvarpinu á sínum tíma og samanborið við niðurstöður fjárlaga fyrir árið 2013. Breytingin er sú að viðmiðun á fjárhæð útvarpsgjaldsins lækkaði talsvert við meðferð fjárlagafrumvarpsins í þinginu með þeim afleiðingum að sú brúttóviðbótarupphæð sem rennur til Ríkisútvarpsins vegna þessa frumvarps lækkar úr 865 milljónum í 610 milljónir. Þetta er veruleg breyting og þegar síðan eru dregnar frá þessari upphæð þær tekjuskerðingar sem auglýsingatakmarkanirnar hafa í för með sér, aukinn rekstrarkostnaður Ríkisútvarpsins vegna þess áskilnaðar sem kemur til út af athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, um að Ríkisútvarpið þurfi að skilja að samkeppnisreksturinn og almannaþjónustuhlutverkið, og í þriðja lagi aukinn kostnaður vegna textunar og táknmálstúlkunar, m.a. varðandi textun sem núna góðu heilli er að komast til framkvæmda, er niðurstaðan sú að raunveruleg aukning ráðstöfunartekna útvarpsins verður í kringum 200 milljónir en ekki rúmlega 500 milljónir eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi.

Síðan má nefna til viðbótar að þær breytingartillögur sem við höfum lagt til í nefndinni munu hafa frekari tekjuáhrif til lækkunar.

Í öðru lagi ræddum við talsvert á þessum tveimur fundum milli umræðna takmarkanir á auglýsingum. Til þess að glöggva okkur betur á þeim áhrifum sem tillögurnar hafa þar fengum við nýtt mat Ríkisútvarpsins á áhrifum þessara tillagna. Niðurstaðan er sú að árleg tekjurýrnun verði 395 millj. kr. en ekki 365 milljónir eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu. Þetta skiptist með þeim hætti að þakið á auglýsingatímann, að fara með auglýsingatíma niður í átta mínútur á klukkutíma, skerðir tekjur Ríkisútvarpsins um 80 milljónir, það að taka kostun út skerðir tekjurnar um 150 milljónir og feitast á stykkinu er það að taka út auglýsingar inni í þáttum sem dregur úr tekjum um 165 milljónir þannig að samandregið eru þetta 395 millj. kr.

Það var talsvert rætt um hvort sú aðgerð að setja þak á auglýsingatímann sé aðgerð sem raunverulega bítur. Hefur þetta tilætluð áhrif, eru það ekki örfá tilvik þar sem Ríkisútvarpið færi yfir þetta þak? Það var dregið fram að á tilteknum tímapunkti í einum mánuði á síðasta ári hefðu þetta ekki verið nema örfá tilvik þar sem það fór yfir þakið en staðreyndin er sú að ef við skoðum allt árið 2012 eru tilfellin 113 þar sem farið er yfir þetta þak. Það sýnir okkur að þetta hefur umtalsverð áhrif á tekjur Ríkisútvarpsins af auglýsingum.

Við bendum á það í nefndarálitinu að Ríkisútvarpið hefur svigrúm til að bregðast við þessum takmörkunum með því að hækka gjaldskrána. Stofnunin verður hins vegar að gera það í nýju umhverfi þar sem gjaldskráin er birt á vef Ríkisútvarpsins og þau afsláttarkjör sem standa til boða eiga að vera öllum sem kaupa sambærilegt magn af auglýsingum tiltæk á jafnræðisgrundvelli. Það má líka draga það fram að svigrúm til verulegra hækkana er nú takmarkað í ljósi þess að auglýsingaverð hjá Ríkisútvarpinu hefur hækkað um ríflega 30% á undanförnum þremur árum. Við teljum að þó að vissulega kunni þetta að leiða til einhverrar hækkunar á gjaldskrá séu þeim hækkunum klárlega takmörk sett.

Það varð nokkur umræða í nefndinni eins og verið hafði áður um hvort almannaþjónustuhlutverkið væri nægilega skýrt eða vel afmarkað. Við teljum augljóst að með frumvarpinu sé skilið á milli almannaþjónustuhlutverksins annars vegar og samkeppnishlutverksins hins vegar og alveg klárt að forgangsröðunin sé sú að Ríkisútvarpið á að leggja megináherslu á almannaþjónustuhlutverkið í framtíðinni.

Það má líka draga það fram, og kom fram í umfjöllun nefndarinnar, að í EES-ríkjunum hefur ekki tíðkast að sérstakar takmarkanir séu lagðar á efnistök ríkisfjölmiðla þó að ég ítreki að í sjálfu sér væri áhugavert að ræða hvernig það yrði gert. Tillögur í þá veru hafa hins vegar ekki komið fram í umfjöllun okkar um málið.

Virðulegi forseti. Ég vil segja almennt um þetta frumvarp og Ríkisútvarpið að við erum hér með ríkisútvarp sem er eitthvert mikilvægasta verkfæri lýðræðisins í landinu. Þetta er sá fjölmiðill sem langflestir landsmenn treysta best til að flytja fréttir og í krafti þess hefur hann einstaka stöðu til að vera til fyrirmyndar í að varpa ljósi á samfélagsmálin, stjórnmálin, samfélagið allt og önnur mál sem brenna á þjóðinni. Þetta hlutverk er mikilvægt á öllum tímum en hefur verið sérstaklega mikilvægt eftir hrun þegar almenningur hefur minni trú á stofnunum samfélagsins, spyr áleitinna spurninga og vill fá við þeim svör. Við getum rætt lengi um það hvort Ríkisútvarpið sinni nægilega vel þessu hlutverki. Ég vildi fyrir minn hatt gjarnan sjá fleiri þætti með fréttaskýringum, ítarlegri umfjöllun um stærstu hagsmunamál þjóðarinnar, en það er óumdeilt að þjóðin er í meginatriðum ánægð með þennan fjölmiðil og það skiptir höfuðmáli.

Við þessar aðstæður hef ég lagt mesta áherslu á það að hlutverk löggjafans sé að skapa Ríkisútvarpinu skilyrði og sjálfstæði, bæði í faglegum og fjárhagslegum efnum. Þetta frumvarp gerir það. Það eykur tekjur ríkisins af útvarpsgjaldinu um 200 milljónir og eykur í leiðinni fjarlægð stjórnmálaflokkanna frá því að skipa fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins. Á sama tíma eru stigin mikilvæg skref í þá átt að draga úr vægi RÚV á auglýsingamarkaðnum og það er gert í þeim tilgangi að auka fjölbreytni á þeim markaði og bæta möguleika einkarekinna fjölmiðla til að gera sig gildandi.

Fjölmiðlamarkaðurinn á Íslandi er viðkvæmur. Rekstrarstaða fjölmiðla er tvísýn og það er mikilvægt að löggjafinn geri sitt til þess að hlúa að fjölbreyttri fjölmiðlaflóru. Ég vildi gjarnan sjá ákveðnari skref stigin í þeim efnum á komandi missirum. Við í Samfylkingunni höfum til dæmis markað þá stefnu að stofnaður verði fjölmiðlasjóður sem styrki fjölmiðlamenn sem vilja helga sig tilteknum verkefnum á sviði rannsóknarblaðamennsku. Sömuleiðis verði í því sambandi skoðaðar leiðir til að styðja staðbundna fjölmiðla um land allt.

Meginmálið er að fjölmiðlar á Íslandi hafi styrk og aðstöðu til að flytja réttar og áreiðanlegar fréttir af þjóðmálunum og geti veitt stjórnvöldum á hverjum tíma málefnalegt aðhald í þágu almennings í landinu. Þar hefur Ríkisútvarpið mikilvægu hlutverki að gegna, jafnvel einstæðu í okkar samfélagi, og ég er sannfærður um að með þessu frumvarpi verður Ríkisútvarpið og fjölmiðlamarkaðurinn allur í betri stöðu til að sinna hlutverki sínu og íslenskum almenningi með sóma.