141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að mæla fyrir málinu. Mig langar fyrst að spyrja hvort ég skilji það rétt. Á bls. 2 í frumvarpinu eftir 2. umr. er í 3. gr. rætt um að Ríkisútvarpið skuli sinna lýðræðislegu hlutverki sínu með því að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar. Þetta er stafliður 2. Ég hef ekki alveg áttað mig á þessu og hlýt að spyrja: Hver hefur þá eftirlit með og tekur út hvort þessu markmiði sé náð? Ég get ekki séð að það sé stjórn stofnunarinnar miðað við það sem kemur fram í 10. gr. Ég er að velta fyrir mér hvort það sé þá eingöngu útvarpsstjóri eða fjölmiðlanefnd — eða hver hefur eftirlit með að Ríkisútvarpið sem er í eigu okkar allra uppfylli skilyrði um að vera hlutlaus stofnun?

Mig langar líka að spyrja út í 14. gr. um gjaldið. Er það réttur skilningur hjá mér að allir sem eru eldri en 16 ára, nema þeir sem hafa einhvers konar undanþágu sem ég náði ekki að fletta upp hver væri nákvæmlega, greiði útvarpsgjaldið? Er ekki eitthvert ósamræmi í því að tala um 16 ára? Fólk fær sjálfræði 18 ára, við miðum almennt við það og ég velti fyrir mér hvort börn og unglingar allt að 18 ára aldri ættu að vera undanþegin. Skil ég þetta rétt, þarf nokkuð að greiða gjaldið af þeim sem eru yngri en 16? Hins vegar greiða allir sem eru eldri en það nema þeir sem eru undanþegnir samkvæmt (Forseti hringir.) 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, eða hvað?