141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við höldum nú áfram í 3. umr. um Ríkisútvarpið. Það fór á milli 2. og 3. umr. til allsherjar- og menntamálanefndar, ekki síst vegna fjárhagshluta frumvarpsins. Það er reyndar umhugsunarefni núna þegar verið er að demba inn málum til 1. umr., risastórum, mikilvægum málum sem er vert að ræða, að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins komi einmitt með mjög athyglisverðar umsagnir svo vægt sé til orða tekið varðandi þessi mörgu mál ríkisstjórnarinnar.

Í því samhengi, herra forseti, velti ég líka fyrir mér hlutverki þingsins. Ég bað sérstaklega um — af því að í því máli sem við erum að ræða varðandi Ríkisútvarpið man ég ekki til þess að það hafi borið svo mikið á milli skoðana fjármálaráðuneytisins annars vegar og menntamálaráðuneytisins hins vegar og er ég þó ágætlega kunnug sögu samskipta þeirra ráðuneyta — að fá fjármálaráðuneytið inn á fund en fékk það ekki.

Það er alveg skiljanlegt með fjárlagaskrifstofuna sem ég tel mikilvægt að verði og sé sjálfstætt apparat innan fjármálaráðuneytisins sem megi ekki og eigi ekki að vera undir þrýstingi, hvort sem er frá ráðherra þess ráðuneytis eða annarra, en um leið takmarkast möguleiki okkar hér á þingi til þess að fara vel ofan í fjármálahlutann. Við verðum þess vegna að koma okkur upp innbyggðu skipulagi til þess einmitt að fara vel ofan í umsagnir fjárlagaskrifstofunnar þegar þær eru með jafnafgerandi hætti eins og í frumvarpi um Ríkisútvarpið, í frumvarpinu um Lánasjóð íslenskra námsmanna og í frumvarpinu um almannatryggingar. Þingið verður að geta komið sér upp virkni eða skipulagi þannig að við getum með raunhæfum hætti kafað ofan í mjög mikilvægar umsagnir fjárlagaskrifstofunnar sem veita okkur hér í þinginu ekki síður aðhald en ráðuneytunum.

Mér fannst það gelda umræðuna að ég fékk ekki þennan fund. Það er ekki við forustumenn nefndarinnar í rauninni að sakast. Við höfðum ekki tækifæri til þess að kafa ofan í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hún segir okkur mikið um það hvernig við sjáum hlutverki Ríkisútvarpsins borgið til skemmri og lengri tíma. Ég hefði gjarnan viljað heyra mismunandi sjónarmið varðandi það, t.d. hvar hlutabréfið er og ekki síður stóra atriðið í þessu máli, þar sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins er sammála fjárlaganefnd þingsins, að nefskatturinn eigi að renna í ríkissjóð og síðan eigi að dreifa því fjármagni til stofnana, hvort sem það sé til Ríkisútvarpsins eða annarra mikilvægra stofnana í samfélaginu.

Mér fannst og finnst þetta umhugsunarefni af því nú er ég að hætta hér, alla vega í bili, upp á vinnubrögð þingnefnda og möguleika þingmanna til þess að kafa djúpt ofan í þessar stóru og mikilvægu athugasemdir frá fjárlagaskrifstofunni sem ég tel að mörgu leyti vera til fyrirmyndar og kalla á mikilvægari og dýpri vinnubrögð af hálfu þingsins. Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins dregur fram skarpar andstæður í skoðunum fjármálaráðuneytisins annars vegar og menntamálaráðuneytisins hins vegar þegar kemur að framlögum til Ríkisútvarpsins.

Að þessu sögðu vil ég sérstaklega draga fram breytingartillögu mína og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þar sem við leggjum til að á eftir 2. málslið 4. töluliðar 3. mgr. 3. gr. komi nýr málsliður svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Minnst 20% af fjárveitingu til dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skal varið til kaupa á innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum.“

Við teljum að í þessu frumvarpi hafi algjörlega mistekst — algjörlega — að skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið, eins og ég hef komið að hér á fyrri stigum og í fyrri umræðum þessa máls, getur í rauninni gert alla skapaða hluti. Það er hægt að fela því alla skapaða hluti. Það er ekki verið að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins eða segja nákvæmlega í hvað fjármunirnir eigi að fara og forgangsraða. Af veikum mætti, og ég dró það fram við 2. umr., eru samt stigin ákveðin skref til heilla að mínu mati af nefndinni á milli umræðna, sérstaklega milli 1. og 2. umr., sem eru mikilvæg, þau eru táknræn. Þótt þau séu ekki mjög stór er samt verið að beina Ríkisútvarpinu í ákveðinn farveg, ekki síst verið að takmarka möguleika þess til kostunar og setja ákveðið þak á auglýsingarnar þó svo að efast megi um að þetta þak hafi raunverulega virkni. Við eigum einfaldlega eftir að fylgjast með því þegar ársskýrslur Ríkisútvarpsins koma fram.

Ríkisútvarpið verður að vita að eftirlitshlutverk þingsins mun aukast við samþykkt þessa frumvarps. Ábyrgð allsherjar- og menntamálanefndar er mikil að fylgjast nákvæmlega með því að ekki sé bara verið að segja nefndinni einhverja hluti sem standast síðan ekki, heldur verður nefndin að fylgjast með því hvað raunverulega er að gerast á auglýsingamarkaði þar sem Ríkisútvarpið leikur stórt hlutverk. Af hverju segi ég það? Jú, í ljósi þess að ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að það eigi að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Af hverju? Til þess að tryggja frelsi og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði, en ekki bara til þess að tryggja frelsi og fjölbreytni á ljósvakamarkaði þar sem eru tveir aðrir nokkuð stórir miðlar, Skjár einn og 365 miðlar, heldur ekki síður til að auka möguleika þeirra þar sem við sjáum mestu gróskuna í dag, þ.e. fjölbreyttra vefmiðla. Vefmiðlarnir eru að sækja í nákvæmlega sömu auglýsingapúllíu og ljósvakamiðlarnir. Því minna sem er til skiptanna í þeirri auglýsingapúllíu, því minni möguleikar eru fyrir vefmiðla og aðra frjálsa fjölmiðlun að pluma sig áfram á markaði. Þetta er hluti af þeirri ástæðu sem ég vil takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég hef margítrekað bent á það fyrirkomulag sem er í Þýskalandi, sem ég held að sé ágætt, hjá ARD og ZDF.

Ég sagði áðan að það hefði algerlega mistekist að skerpa hlutverk Ríkisútvarpsins. Þess vegna leggjum við til, ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, að minnst 20% af fjárveitingunum til Ríkisútvarpsins fari til kaupa á innlendu efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

Það hefur verið býsna erfitt að þoka þessu áfram. Ég þekki það líka. Reynt er að nota þjónustusamningana. Ég held að ráðherra hverju sinni verði að vera miklu grimmari í að beita þjónustusamningnum. Ráðuneytið verður að sýna aðhaldshlutverk gagnvart Ríkisútvarpinu, setja fram kröfur og síðan þarf allsherjar- og menntamálanefnd þingsins að fylgja því eftir.

Þróunin hefur verið allt of hæg hjá Ríkisútvarpinu að taka stærri skref í þá átt að kaupa innlent efni af sjálfstæðum framleiðendum. Það er raunin í ljósi þeirrar sögu og þeirrar þróunar og meginhlutverks þeirra breytinga sem gerðar voru á sínum tíma. Þegar við breyttum yfir í ohf. var einn af lyklunum að því frumvarpi að við vildum sjá aukna framleiðslu á innlendu efni, keyptu efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Það hefur aðeins tutlast áfram, en ekki nóg. Þess vegna sakna ég þess að Ríkisútvarpið skuli ekki sýna meira frumkvæði en raun ber vitni og kaupa efni af sjálfstæðum framleiðendum.

Ég veit að metnaður þeirra sem stjórna Ríkisútvarpinu er mikill. Þau vilja gera betur. Þau vilja gera betur á þessum vettvangi, en líka öðrum. Það er fróðlegt að sjá það núna að rétt áður en við fáum tækifæri til að greiða atkvæði um þetta mál er Ríkisútvarpið að eigin frumkvæði, áður en lagasetningin kemur, að taka sig á hvað varðar textun og hljóðgervla með röddum Dóru og Karls sem mun hjálpa bæði blindum og sjónskertum og textunin mun náttúrlega hjálpa þeim sem eru heyrnarskertir eða heyrnarlausir. Þetta eru fín skref og mér finnst þetta jákvætt. En ég vil enn sjá Ríkisútvarpið draga saman.

Ég kem úr flokki þar sem eru skiptar skoðanir. Ég hef dregið fram hér áður að þar eru líka skiptar skoðanir um hvort við viljum að Ríkisútvarpið verði áfram starfandi á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa Ríkisútvarp. Það á að vera sterkt á því sviði sem það á að einbeita sér að, á sviði fréttaöflunar, almannaþjónustu og öryggismála.

Tímarnir hafa breyst. Ég held að við verðum að taka í ríkara mæli tillit til þess að heimurinn er allur að breytast, í margmiðlun, í sjónvarpi og hljóðvarpi. Það mun þýða að Ríkisútvarpið og hlutverk þess mun líka breytast. Hvernig munu börnin okkar ná sér í efni? Þau munu ekkert endilega fara beint inn á stöðvarnar, hvort sem þær tilheyra 365, Skjá einum eða Ríkisútvarpinu. Fólk mun einmitt sækja sér efni frá sjálfstæðum framleiðendum víða og móta sína eigin dagskrá. Ég held að það verði ein af mestu áskorunum Ríkisútvarpsins til lengri tíma litið hvernig það ætli að mæta því, en fyrst og fremst vil ég sjá frekari takmarkanir á hlutverki þess. Það er að mistakast, þótt menn hafi verið að lappa aðeins upp á það sem kemur fram í frumvarpinu.

Við verðum að átta okkur á því að breytingarnar á Ríkisútvarpinu á sínum tíma í ohf. voru þarfar. Ég fagna því sérstaklega að þeir flokkar sem voru hvað mest á móti því að breyta Ríkisútvarpinu í ohf. skuli ekki ætla að hverfa frá því. Þeir vita af fenginni reynslu að þetta er mikilvægt tæki, ekki síst í ljósi þess að okkur hefur ekki tekist að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það er ekki nógu mikill sveigjanleiki í rekstri ríkisstofnana. Þá er mikilvægt fyrir Ríkisútvarpið að starfa undir merkjum ohf. með tilheyrandi kröfum og ákveðinni ábyrgð. Ríkisstjórnarflokkarnir sem voru á móti þessu á sínum tíma og töluðu langt fram á margar nætur ætla ekki að breyta því til fyrra horfs.

Það sem skipti máli við breytingarnar sem gerðar voru á sínum tíma var, eins og ég sagði áðan, að við vildum sjá aukna framleiðslu og aukin kaup Ríkisútvarpsins á innlendu dagskrárefni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum, en við vildum líka, og það var markvisst gert, draga úr pólitískum afskiptum af Ríkisútvarpinu. Mér fannst það mjög ankannalegt að menntamálaráðherra skipaði á sínum tíma alltaf framkvæmdastjóra útvarpsins og framkvæmdastjóra sjónvarpsins. Við aflögðum það. Hlutverki útvarpsráðs á sínum tíma var algjörlega breytt þannig að útvarpsráðið ræður ekki eða rekur starfsmenn eða er með eitthvert umsóknarferli eins og var með starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Í dag hefur útvarpsráð fyrst og fremst með það hlutverk og þá ábyrgð að gera sem tengist rekstri Ríkisútvarpsins þannig að það sé rekið almennilega svo að skattfé almennings fari ekki alltaf í það að jafna út reksturinn reglulega. Það ánægjulega við þessa breytingu er að á þriðja ár hefur Ríkisútvarpið verið rekið með hagnaði, öðruvísi mér áður brá. Ríkisútvarpið er ekki lengur alltaf mínusmegin, heldur plúsmegin. Það er gott og það er meðal annars út af þeirri breytingu sem við stóðum að á sínum tíma.

Ég efast um að þær breytingar sem er verið að gera hér til að breyta stjórn Ríkisútvarpsins séu til þess fallnar að auka enn frekar sjálfstæði Ríkisútvarpsins frá hinu pólitíska valdi. Ég leyfi mér að efast um að þetta sé rétta skrefið. Ég trúi ekki öðru en við séum öll sammála um það að við viljum ekki pólitísk afskipti eða möguleika á pólitískum afskiptum allra flokka af dagskrá Ríkisútvarpsins eða af því hverjir eru starfsmenn Ríkisútvarpsins. Sá sem ber ábyrgð á því að ráða og reka starfsmenn er útvarpsstjóri. Hann er síðan ábyrgur gagnvart útvarpsráði sem á endanum ræður og getur rekið útvarpsstjóra í samstarfi við ráðherra hverju sinni. Okkur hefur að mörgu leyti tekist að minnka pólitísk afskipti. Við viljum hnykkja á því. Ég efast um að sú leið sem hér er farin stuðli að því nákvæmlega.

Ég vil draga fram það sem Blaðamannafélag Íslands setti fram í umsögn sinni. Það undirstrikaði það sjónarmið sem ég hef sett fram, að takmarka beri hlutverk Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það er gert með ákveðnum hætti í frumvarpinu, jákvæð skref tekin, en ég efast um að þau hafi einhver áhrif á markaðinn til skemmri og lengri tíma.

Í ljósi þess að ég hef sagt að mér finnst hlutverk Ríkisútvarpsins ekki vera skert og skýrt í þessu máli hef ég kosið að horfa til þess að hlutverk næstu ríkisstjórnar varðandi málefni þessarar stofnunar verði að forgangsraða starfsemi Ríkisútvarpsins enn frekar, m.a. með því að taka tillit til þeirrar starfsemi sem hefur verið farsæl innan raða Danmarks Radio. Þar hefur verið skýr pólitísk stefnumörkun um hvert hlutverk Danmarks Radio er. Ég hefði viljað sjá eitthvað svipað í þessu frumvarpi. Það var ekki gert. Því óska ég og vonast ég til þess að það verði (Forseti hringir.) þá eitt af fyrstu verkum nýs menntamálaráðherra og nýrrar ríkisstjórnar hvað snertir málefni Ríkisútvarpsins.