141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:00]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek hér til máls um frumvarp um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Það sem ég vil kannski helst ræða er breytingartillaga sú er ég flyt við þetta mál og gengur út á hvernig eigi að kynna framboð í Ríkisútvarpinu. Við skoðuðum það mál talsvert í nefndinni og gerðum breytingar á frumvarpinu. Breytingarnar hafa fengið umræðu hér og búið er að greiða atkvæði um þær. Ég studdi þá breytingartillögu sem gekk út á það að Ríkisútvarpinu væri skylt að veita þeim framboðum og fylkingum sem bjóða fram eða eru með mismunandi sjónarmið í þjóðaratkvæðagreiðslum ákveðið svigrúm í dagskrá sinni, þ.e. að kynna ætti framboð, fyrir hvað þau stæðu og helstu mál á vegum Ríkisútvarpsins þar sem Ríkisútvarpið hefði ritstjórnarvald yfir þeim kynningum. Þannig hefur þetta verið og við teljum að það eigi að vera þannig áfram. Ríkisútvarpinu er skylt að kynna framboð en hefur svokallað ritstjórnarvald yfir því sem sýnt er.

Fram kom í nefndinni þegar útvarpsstjóri mætti fyrir hana að Ríkisútvarpið sæi fyrir sér að til dæmis fyrir umræðuþætti fengi framboðið kannski ákveðna spurningu sem tengdist því sem ætti að ræða í umræðuþættinum og að viðkomandi framboð ætti að svara þeirri spurningu, einni eða fleiri. Við settum líka skýrt inn að Ríkisútvarpið skyldi setja sér reglur um hvernig ætti að standa að slíkum kynningum. Ég tel að mjög mikilvægt sé að menn séu þokkalega sáttir við reglurnar þegar þær verða lagðar fram.

En það sem við gerðum ekki, alla vega ekki í nefndinni að þessu sinni — og ég ber því hér fram breytingartillögu — þó að ég telji að ýmsir í nefndinni hafi mikinn skilning á þeirri aðferð, þ.e. að veita framboðum tækifæri til að kynna sig líka á annan hátt, þ.e. að fá ákveðnum tíma úthlutað í Ríkisútvarpinu þar sem framboðin gætu kynnt sig alveg á eigin forsendum og ekki yrði beint ritstjórnarlegt vald Ríkisútvarpsins yfir því. Það yrði kannski að einhverju leyti um ígildi auglýsingar að ræða þó að það yrði ekki bein auglýsing heldur meira eins og kynning á framboðum og helstu stefnumálum þeirra og að flokkarnir fengju ákveðnar mínútur til þess og þeir fengju þær mínútur endurgjaldslaust, þ.e. ókeypis, þeir þyrftu ekki að borga fyrir það.

Þessi leið var kynnt fyrir okkur af nefnd sem Finnur Beck var formaður í, nefnd með fulltrúum frá stjórnmálaflokkunum. Nefndin tók til starfa meðal annars vegna þess að í fyrra frumvarpi menntamálaráðherra var lagt til að banna skoðanakannanir í aðdraganda kosninga. Allsherjar- og menntamálanefnd var ekki sátt við þá hugmynd og tók það út úr málinu á sínum tíma. Til að skoða þessi mál almennt hvernig Ríkisútvarpið á að vinna í aðdraganda kosninga, og fleiri fjölmiðlar en kannski sérstaklega Ríkisútvarpið, var nefndin sett á laggirnar og hún hefur verið að skoða þessi mál og þar á meðal hvernig framboð eigi að fá að kynna sig í aðdraganda kosninga.

Nefnd Finns Becks og félaga skilaði fyrst til okkar minnisblaði og nú er búið að skila heilu áliti eða skýrslu frá nefndinni. Þar mælir hún með því að fara þá leið sem ég er legg til í breytingartillögu, þ.e. að framboðin fái alveg sérstakan tíma til að kynna sig án þess að Ríkisútvarpið sé með ritstjórnarvald yfir því og það verði endurgjaldslaust.

Margir gætu spurt af hverju í ósköpunum ætti að gera þetta. Gætu flokkarnir ekki bara keypt sér auglýsingatíma sem kosti ákveðið fjármagn? Hægt væri að líta á þetta sem hvert annað fyrirtæki, stjórnmálaflokk, sem kaupir sér auglýsingar á markaði. Nefndin hefur fært rök fyrir því að ekki sé kannski svo einfalt að gera það. Flokkarnir hafa mismunandi aðstöðu í því sambandi og minni flokkar hafa örugglega minna svigrúm en þeir stærri. Það gæti skipt máli fyrir lýðræðið að öll framboð hefðu svipað tækifæri til að koma sér á framfæri í sjónvarpi og útvarpi, sem sagt í Ríkisútvarpinu, á jafnréttisgrundvelli án þess að það mundi sliga framboðin fjárhagslega.

Sú aðferð að veita endurgjaldslausan tíma til kynningar, það eru tvíþætt sjónarmið í því sambandi sem mæla með því. Annars vegar hjálpar það litlum framboðum sem eiga lítið fjármagn og hafa ekki bolmagn til að kaupa sér auglýsingar á markaði. Þau geta þá fengið tækifæri til að fara í þennan sterka miðil sem Ríkisútvarpið svo sannarlega er og fengið að kynna sig. Það er eitt sjónarmiðið. Hitt sjónarmiðið sem vegur líka sterkt, með þeirri breytingartillögu sem ég flyt, er að hinir minni flokkar eða hin minni framboð eru líklegri til að vera með frekar fá mál á oddinum, vera ekki endilega með mjög heildstæða stefnuskrá heldur vera framboð sem tengjast kannski einhverju máli sem er mjög ofarlega á baugi í samfélaginu á hverjum tíma. Það mundi ef til vill ekki henta þeim að fá bara tækifæri til að kynna sig í Ríkisútvarpinu, á forsendum Ríkisútvarpsins sjálfs eða með ritstjórnarvaldi þess, þar sem þau færu inn í form sem gæti hentað illa fyrir sjónarmið þeirra, þannig að sjónarmið þeirra komi illa fram.

Ég nefndi áðan fyrirspurnaform í umræðuþáttum, að framboð gætu þá fengið spurningar sem þau hefðu jafnvel engan sérstakan áhuga á að svara og væru ekki á oddinum hjá þeim, þannig að það kæmi eiginlega aldrei fram út á hvað framboðin gengju. Þetta hafa verið rökin með því að veita kynningartíma endurgjaldslaust fyrir framboð. Þetta er gert víða í öðrum löndum. Ég er ekki með skýrsluna við höndina sem Finnur Beck og nefnd hans skilaði af sér en þar er hægt að skoða dæmi frá öðrum löndum hvar þetta er gert.

Virðulegur forseti. Breytingartillagan er svohljóðandi:

„Á eftir 2. málslið 7. töluliðar 2. mgr. 3. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig skal Ríkisútvarpið veita öllum gildum framboðum til Alþingis jafnan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín án endurgjalds.“

Í nefndinni spurðum við útvarpsstjóra sérstaklega út í það hvort þessi breytingartillaga væri góð eða slæm. Fram kom að svo framarlega sem skýrt væri hvað við væri átt sæi útvarpsstjóri ekkert henni til foráttu. Að vísu missir Ríkisútvarpið einhverjar tekjur, væntanlega mest þá frá hinum stærri flokkum sem hafa efni á að auglýsa. Þeir gætu þá hugsanlega dregið aðeins úr því auglýsingamagni sem þeir kaupa, ef þeir auglýsa mikið í ríkissjónvarpi sem við vitum auðvitað ekki núna hvernig verður, hvort flokkarnir taka sig saman um einhverja línu í því eða ekki. Ríkisútvarpið gæti misst einhverjar tekjur, ég held að þær séu mjög óverulegar en þær geta munað miklu hjá hinum minni framboðum sem geta sprottið upp út af einhverjum sérstökum aðstæðum eða í kringum einhver mál sem geta verið mjög ofarlega á baugi og verið mjög mikilvæg fyrir samfélagið á hverjum tíma.

Þessi tillaga er lögð fram í lýðræðisanda og ég vona að hún fái brautargengi. Ég spurði í umræðunni um daginn þegar við fórum yfir málið heildstætt hvort hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson gæti hugsað sér að styðja slíka hugmyndafræði og það kom fram í ræðu að hv. þingmaður var frekar veikur fyrir tillögunni þannig að ég vona að fleiri sjái að það gæti verið mjög æskilegt að samþykkja breytingartillöguna og fara þá leið sem Finnur Beck og nefnd hans leggur til. En líka á sama tíma að setja þá skyldu á Ríkisútvarpið að kynna framboðin og hafa þá ritstjórnarvald yfir því. Þetta eru eins og tveir skólar, í staðinn fyrir að fara bara í annan skólann þá förum við í báða skólana. Við tökum báðar leiðir í okkar notkun.

Virðulegur forseti. Ég vil segja að lokum að mjög mikil umræða var í nefndinni. Við tókum málið til nefndar milli 2. og 3. umr. og þá gekk umræðan mest út á fjárhag Ríkisútvarpsins, hve miklu Ríkisútvarpið tapar út með því að takmarka það á auglýsingamarkaði og takmarka kostun. Það er auðvitað tap fyrir Ríkisútvarpið að hemja það þar, en svo fær það tekjur á móti sem er þessi svokallaði nefskattur og útvarpsgjald inn til sín. Hvernig vigtar þetta allt saman? Mjög mikil umræða hefur verið um að Ríkisútvarpið væri að stórgræða á þessum breytingum. Það græðir miklu minna en menn héldu eftir að hafa farið djúpt ofan í það. Mig minnir að heildarniðurstaðan hafi verið eitthvað í kringum 200 milljónir, já, það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans: „Með hliðsjón af þessu er raunveruleg aukning ráðstöfunartekna Ríkisútvarpsins að öllum líkindum innan við 200 millj. kr.“

Það er því ekki rétt sem komið hefur fram að það sé einhver svakaleg upphæð í heildarsamhengi sem Ríkisútvarpið fær og að það muni sliga heilbrigðiskerfið og ég veit ekki hvað og hvað, alltaf er verið að vigta þetta á móti heilbrigðiskerfinu. Skorið hefur verið gríðarlega mikið niður hjá Ríkisútvarpinu, margfalt meira en þetta hljóðar upp á. Auðvitað hefur dagskráin látið á sjá en þó minna en menn gætu haldið. Ég tel því að Ríkisútvarpið hafi staðið sig alveg gríðarlega vel í þeim niðurskurði og að mjög jákvætt sé að það fái þarna örlítið aukið svigrúm inn til framtíðar til að styrkja sig og líka til að efla þjónustu sína á landsbyggðinni. Nefndin hefur gert meiri kröfur um það en hæstv. ráðherra lagði fram í upphaflegu frumvarpi. Við höfum lagt til og það hefur verið samþykkt og var gert hér um daginn að Ríkisútvarpið eigi að hafa starfsstöðvar á landsbyggðinni, að það sé sem sagt skylda.

Svo var annað sem kom fram varðandi fjármagnið sem Ríkisútvarpið fær og þá orðræðu um að Ríkisútvarpið sé svona svakalegur risi á auglýsingamarkaði. Stundum er verið að lýsa Ríkisútvarpinu sem það sé hálffjandsamlegt á auglýsingamarkaði og gúffi til sín allar auglýsingar og svo framvegis, en það er ekki reyndin ef tölur eru skoðaðar. Í nefndinni kom fram að Ríkisútvarpið er með í kringum 30% á auglýsingamarkaði. Helsti keppinautur Ríkisútvarpsins er 365. Mér skilst að sá miðill sé með í kringum 60%. Alla vega er pottþétt að Ríkisútvarpið er með 30% á auglýsingamarkaði í ljósvakamiðlum og er, eins og það var orðað í nefndinni, í góðu 2. sæti en alls ekki í 1. sæti. Það er alls ekki stærst á auglýsingamarkaði. Ríkisútvarpið er því ekki sá svakalegi risi sem talað hefur verið um á þessum markaði en að sjálfsögðu ber að halda því samt til haga að Ríkisútvarpið fær nefskatt, útvarpsgjald, gjald frá ríkissjóði sem hinir miðlarnir fá ekki. Það er auðvitað hvatinn að því að við erum með þessu frumvarpi að hemja RÚV meira á auglýsingamarkaði en gert hefur verið og takmarka líka kostun.