141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir góða og málefnalega ræðu. Hún leggur fram breytingartillögu sem lýtur að því hvernig Ríkisútvarpið eigi að þjónusta stjórnmálahreyfingar í kosningum. Það er atriði sem við höfum rætt talsvert í nefndinni. Það er í raun valið á milli þess að áskilið sé að Ríkisútvarpið sé með ókeypis dagskrártíma fyrir framboðin og hafi þá ekki ritstjórnarlegt vald yfir því efni sem þar er flutt, eða hvort fara eigi þá leið sem við völdum í nefndinni, að veita eigi öllum gildum framboðum jafnt tækifæri til að kynna sín stefnumál á hefðbundnum dagskrártíma í sjónvarpi og Ríkisútvarpið birti reglur þar að lútandi og hafi ritstjórnarvald yfir þessu.

Slíkur áskilnaður um ókeypis útsendingartíma hefur ekki verið í lögum. Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi útfærsluna af því að nú erum við á dálítið viðkvæmum tímapunkti. Það eru örfáar vikur til þingkosninga. Ljóst er að mikill fjöldi framboða verður og er afar brýnt að ákvarðanir liggi þá fyrir mjög snemma um fyrirkomulagið. Fyrsta spurningin er þessi: Hve langur tími ætti að vera undir í þessu efni? Hvað ætti Ríkisútvarpið að veita þessum framboðum langan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín og á hann að vera jafn, óháð því hvort framboðin bjóða fram í öllum kjördæmum eða ekki?