141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna að það er ánægjulegt að vera komin með þetta mikla mál, þessa endurskoðun á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, til 3. umr. Við tókum málið aftur inn á milli 2. og 3. umr. og var þar ýmislegt bætt og hefur skapast um málið nokkuð víðtæk samstaða, ágæt sátt. Við höfum náð að vinna málið þannig í nefndinni að á meirihlutaálitinu eru fulltrúar allra flokka nema eins, og er það mjög jákvætt þegar um er að ræða eina af lykilstofnunum í samfélagi okkar sem Ríkisútvarpið er svo sannarlega.

Öll lög og allar breytingar sem gerðar verða varðandi Ríkisútvarpið verða alltaf gagnrýndar. Hér er hins vegar verið að stíga mörg jákvæð skref í áttina að því að skjóta enn traustari stoðum undir stofnunina. Hægt er að fullyrða að þverpólitískur vilji er fyrir því í litrófi stjórnmálanna að halda úti fjölmiðli í almannaþágu. Það talar enginn fyrir því að Ríkisútvarpið heyri sögunni til, það eru hins vegar skiptar skoðanir um hvernig stofnunin er fjármögnuð. Við í mínum flokki höfum talað fyrir því að stíga skref í þá átt að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, ekki síst til að gefa einkareknum ljósvakamiðlum svigrúm á þeim örmarkaði þar sem fjölmiðlar okkar starfa.

Það er erfitt að bera Ríkisútvarpið saman við stórveldi eins og BBC og norrænu stöðvarnar sem starfa á 5–60 milljóna mörkuðum og nefskattur þar til að halda þessum stofnunum úti er smávægilegur miðað við þann skatt sem hver einasti Íslendingur greiðir til að halda Ríkisútvarpinu úti og það mundum við aldrei gera nema talin væri ástæða fyrir því að gera það. Þar komum við að hlutverkinu, almannahlutverkinu. Það er mjög mikilvægt að það sé öflugur almannamiðill sem heldur úti annars vegar fræðslu og upplýsinga- og afþreyingarefni og hins vegar öflugri fréttastofu. Þessi miðill hefur líka öryggishlutverk eins og þekkt er, en til að fjölmiðillinn standi undir nafni og nái til fólksins þarf hann líka að sýna líka efni sem nýtur vinsælda og telst til afþreyingar af léttara taginu.

Ekki er hægt að skilyrða Ríkisútvarpið og starfsemi þess við miðlun eins efnis frekar en annars og eins og segir í álitinu telur meiri hlutinn rétt að benda á að í umfjöllun nefndarinnar kom fram að í EES-ríkjunum tíðkast ekki að sérstakar takmarkanir séu lagðar á efnistök ríkisfjölmiðla, ekki aðrar en þær sem koma fram í lögum um markmið, sem er auðvitað nokkuð vítt og mætti alveg sjálfsagt draga frekar saman og skerpa á því ef út í það væri farið. Það má endalaust rökræða um hlutverkið og hvernig það er skilgreint, en í meginatriðum ríkir sátt um það sem hér er lagt upp með, enda byggir frumvarpið á lögum sem samþykkt voru þegar Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi á sínum tíma. Heldur er verið að skerpa á hlutverkinu núna miðað við núgildandi lög til að markmiðið sé ljóst.

Markmiðið með lögunum er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi og svo framvegis. Það er stórt og almennt hlutverk en það er betur dregið saman í frumvarpinu sjálfu.

Fjármögnun Ríkisútvarpsins, tekjustaða og umfang á auglýsingamarkaði skiptir miklu máli. Við héldum mörg að í rauninni væri Ríkisútvarpið umsvifameira en það er á auglýsingamarkaði þar sem hlutdeild þess er rétt um 30%, það er með rétt um þriðjung af auglýsingamarkaði. Bendum við á það í álitinu að frumvarpið skyldar Ríkisútvarpið til að birta gjaldskrá fyrir viðskiptaboð og að tryggja jafnræði í afsláttarkjörum fyrir sambærilegt magn viðskipta. Það sem umdeildast var í starfsemi Ríkisútvarpsins sneri að viðskiptaboðunum og kostun á einstökum þáttum og er að verulegu leyti tekið fyrir það. Það er það skref sem verið er að stíga með frumvarpinu sem ég held að muni skila okkur enn þá betra og enn þá öflugra Ríkisútvarpi en starfar í dag.

Eins og ég sagði áðan verður starfsemi Ríkisútvarpsins alltaf rökrædd, hún verður alltaf umdeild í sjálfu sér, en ég held að hægt sé að fullyrða að Ríkisútvarpið sé mjög sjálfstæð stofnun í dag. Það var jákvætt á sínum tíma þegar útvarpsráð var lagt niður og tekið upp það fyrirkomulag sem nú er. Þó að það sé gallað og það megi örugglega bæta, byggir það á lögunum sem sett voru á sínum tíma, fyrir átta árum. Þar er stjórn yfir Ríkisútvarpinu, vissulega, sem er skipuð fulltrúum sem eru kosnir hér að hluta en þó með allt öðrum hætti en gert var varðandi gamla útvarpsráðið sem vélaði um einstakar ráðningar á fréttamönnum. Það heyrir allt sögunni til. Ég held að Ríkisútvarpið sé miklu öflugri og sjálfstæðari stofnun nú en hún hefur nokkurn tíma verið áður í sögu útvarpsins. Það er skýr eldveggur á milli stjórnunar og rekstrar stofnunarinnar og stjórnmálanna og ég hef ekki heyrt nein dæmi um það árum saman að stjórnmálamenn eða stjórnvöld á hverjum tíma séu að reyna að hlutast til um efnistök eða umfjöllun fréttastofu eða starfsemi útvarpsins umfram það sem gert er í umræðum á Alþingi um lög um Ríkisútvarpið þar sem okkur ber að sjálfsögðu að hafa skoðun á fyrirkomulagi þessara mála. En með þessu frumvarpi eflum við enn stofnun sem er mjög öflug í dag. Um leið eru umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í gegnum kostun takmörkuð umtalsvert, hér er stigið skref í þá átt að takmarka umsvifin á auglýsingamarkaði. Það má vel vera að Alþingi ákveði eftir fimm ár eða átta ár eða tíu ár í næstu endurskoðun á lögum um Ríkisútvarpið að stíga stærri skref, að taka það út að hluta til eða skilyrða við töluvert minni hluta auglýsingamarkaðar en hér er gert, en ég held að það væri mjög óvarlegt að stíga slíkt skref nú og sé ekki alveg tilganginn með því. Við viljum ekki skilja Ríkisútvarpið eftir í fjárhagslegu tjóni. Það þyrfti þá að bæta því skerðinguna á fjárlögum nema við séum að reyna að draga úr starfsemi og umsvifum stofnunarinnar þannig að hún segi upp fólki og dragi úr starfsemi sinni, sem er alls ekki markmiðið með frumvarpinu heldur þvert á móti. Með því að útvarpið hafi markaðar skatttekjur eins og hér er ákveðið að gera með að innheimtar tekjur af núverandi útvarpsgjaldi renni óskertar til félagsins, skilar ráðstöfun þess því tekjum sem nemur skerðingunni og umtalsvert umfram það. Hér eftir fær Ríkisútvarpið óskert það útvarpsgjald sem innheimt er til þess að fjármagna starfsemi útvarpsins. Ég tel að það sé mjög heppilegt fyrirkomulag.

Það má endalaust ræða um það með hvaða hætti við eigum að koma eignarhaldinu fyrir. Við töluðum fyrir því í breytingunum árið 2005 og 2006 að fara frekar þá leið að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun. Þáverandi meiri hluti ákvað að Ríkisútvarpið væri sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins og núverandi ráðherra og meiri hluti hér ákveða að halda því óbreyttu. Ég held að hyggilegt sé að stíga engin skref eða að gera breytingar á umhverfinu og rammanum um Ríkisútvarpið sem skert geta starfsemi þess eða dregið með einhverjum hætti úr þróttinum sem svo sannarlega er í stofnuninni. Auðvitað má deila og rökræða um mjög margt í starfsemi útvarpsins og allir hafa sína skoðun á útvarpinu, en við ræðum um rammann utan um það, markmiðin með rekstri þess og hvernig við fjármögnum starfsemina, umsvifin og umfangið á markaði, það er það sem skiptir mestu máli.

Hér eru fluttar breytingartillögur sem sjálfsagt er að ræða við 3. og síðustu umræðu um málið. Hv. þingmenn Skúli Helgason og Siv Friðleifsdóttir skiptust á skoðunum áðan um breytingartillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um ókeypis auglýsingatíma fyrir framboðin eins og var áður þegar flokkarnir skiluðu inn 20 mínútna fyrir fram gerðum þætti sem var svo sýndur á ágætum tíma rétt fyrir kosningar. Það var lagt af í kosningunum 2007. Stigið er skref í áttina að því að tryggja öllum umfjöllun hér en ekki farið alla leið aftur í gamla fyrirkomulagið þar sem það gæti reynst býsna flókið í framkvæmd ef hér eru 15–20 framboð. Það er erfitt að koma því fyrir og eins að taka ákvörðun um slíkt núna rétt fyrir kosningar um að framboðin fái ókeypis auglýsingatíma. Við teljum að við förum ágæta leið hér sem við leggjum til að farin verði út frá skýrslunni sem nefnd var áðan. Það má alltaf endurskoða það og laga til ef þurfa þykir síðar.

Hvað varðar hina breytingartillöguna, frá hv. þingmönnum Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni þar sem er lagt til að minnst 20% af fjárveitingu dagskrárgerðar Ríkisútvarps skuli varið til kaupa á innlendu efni frá sjálfstæðum framleiðendum er það auðvitað hið ágætasta markmið. Það er jákvætt að vilja auka hlutfall innlends efnis sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum, en hér er verið að leggja til að stigið verði stigið risastórt skref. Í dag er hlutfallið 6% og það er mjög stórt skref að fara í einu vetfangi úr 6% upp í 20% af fjárveitingunni. Það mundi auðvitað kalla á heilmiklar breytingar innanhúss í Ríkisútvarpinu og þurfum við að meta áhrifin af slíkri breytingu áður en við samþykkjum hana.

Er átt við að Ríkisútvarpið þurfi þá sem því nemi að leggja niður ef til vill fimm, tíu, fimmtán störf? Við þurfum að meta áhrifin á stofnunina áður en við stígum svo stórt skref. Markmiðið er fínt, að auka hlutdeild af keyptu innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum, ég tek eindregið undir það, og hafa verið stigin skref í þessa átt. Í dag er hlutfallið 6%. Hér er verið að leggja til að þetta verði 20% og við þurfum að meta áhrifin af því. Ég varpa því til hv. flutningsmanna hvort þeir hafi látið meta áhrifin af tillögunni á starfsemi Ríkisútvarpsins, það þurfum við að vita áður en við greiðum atkvæði um breytingartillöguna. Það skiptir mjög miklu máli.

Það sem stendur upp úr vinnu vetrarins og fyrri vetra á þessu kjörtímabili er að mikið hefur verið unnið í málinu. Við höfum fengið umsagnaraðila aftur og aftur fyrir nefndina, við höfum farið mjög ítarlega ofan í hvert einasta atriði og stöndum uppi með lagagjörð um Ríkisútvarpið sem skapar stofnuninni betri, öflugri og skýrari ramma en nokkurn tímann áður í sögu Ríkisútvarpsins. Fjölmiðillinn hefur að mínu mati aldrei verið öflugri en núna. Það má örugglega breyta ýmsu og endurskoða ýmislegt í umgjörðinni og starfseminni en hér stígum við jákvæð skref í áttina að því að skapa öflugra Ríkisútvarp en áður. Það er ánægjulegt og það sannar sú breiða, pólitíska samstaða sem er um frumvarpið, eins og ég nefndi áðan. Þingmenn úr allsherjar- og menntamálanefnd, úr öllum flokkum nema einum, skrifa undir frumvarpið. Það er markmið í sjálfu sér að skapa sátt um rekstur og fyrirkomulag á almannaútvarpi og sjónvarpi eins og Ríkisútvarpinu af því að það er aldrei sjálfsagt að skattborgarar verji háum fjárhæðum frá hverju einasta heimili til rekstrar á slíkum fjölmiðli. Það þarf alltaf að vera skýr ástæða fyrir því og hana höfum við nú. Við þurfum góða kjölfestu á fjölmiðlamarkaði en um leið þurfum við að tryggja einkareknum fjölmiðlum svigrúm og andrými á markaði, sem ég tel að við gerum. Einkamiðlarnir eru með 70% af auglýsingamarkaði, Ríkisútvarpið 30% og hér er verið að taka Ríkisútvarpið út af kostunarmarkaði fyrir utan stóra atburði eins og alþjóðleg íþróttamót og Eurovision og slíkt. Þetta er því sanngjarnt skref í rétta átt eins og önnur sem hér eru lögð til.