141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann nefndi að það virðist vera góð sátt meðal flestra þingmanna, þó ekki allra og ekki þess sem hér stendur, um að hafa ekkert skilgreint hvað Ríkisútvarpið á að gera heldur eigi það að geta verið í öllu. Íslenska ríkisútvarpið hefur þá sérstöðu að það hefur getað keppt við einkaaðila í raun með hvaða hætti sem það hefur viljað og samtímis verið á auglýsingamarkaði. Það er auðvitað risastórt á íslenskum auglýsingamarkaði og sú prósenta sem hv. þingmaður nefndi sýnir það einmitt.

Hv. þingmaður fór yfir að búið væri að svara öllum spurningunum og fara vel yfir málið. Ég vil þá nota tækifærið og biðja hv. þingmann að upplýsa um eitt. Ég hef setið aðeins í nefndinni þegar fjallað hefur verið um þetta mál. Að vísu saknaði ég þess þegar við báðum um að fá sérstaklega fulltrúa smærri fjölmiðlanna á fund nefndarinnar á milli umræðna að það var ekki gert. Málið var tekið út þegar ég var ekki á svæðinu. En ég hef haft áhyggjur af ruðningsáhrifum Ríkisútvarpsins sem hafa gert það að verkum að óeðlileg samþjöppun hefur orðið á fjölmiðlamarkaði. Það er í rauninni mjög óeðlilegt að við séum ekki að ræða þetta í tengslum við aðra fjölmiðlalöggjöf en það er annað mál.

Ég er búinn að spyrja hvað eftir annað í umræðunni og í nefndinni einnar spurningar sem ég vildi fá svar við. Nú liggur fyrir að ríkisútgjöld munu aukast um 600–700 milljónir nái þetta mál og þessi fyrirætlun fram að ganga. Ég vil bara vita: Hvaðan eiga þeir peningar að koma? Því hefur ekki verið svarað fram til þessa.