141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:41]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst ber að nefna að við fengum fulltrúa annarra fjölmiðla, bæði stórra og smárra, ítrekað á fundi nefndarinnar á þessu þingi og fyrra þingi þannig að við höfum átt ágætissamstarf við þá sem fara fyrir einkareknu miðlunum. Við höfum fengið margar ágætar og gagnlegar ábendingar og skoðanir frá þeim sem hafa orðið til þess að bæta frumvarpið þannig að ég tel að við höfum hlustað ágætlega á þá.

Hvað varðar hlutverk Ríkisútvarpsins þá byggir hlutverkalýsing þess á þeirri sem var samþykkt í þinginu 2005–2006. Það var mjög víð og opin lýsing í sjálfu sér að mörgu leyti og hér er unnið áfram með hana og reynt að skerpa á henni og hefla. Ég get tekið undir að það mætti alveg vinna áfram með þetta og afmarka hlutverkið enn þá betur og dreg ekkert undan með að það bíður örugglega næstu endurskoðunar að gera það.

Hér er verið að færa til fjármuni að því leytinu að Ríkisútvarpið fær þær tekjur sem eru innheimtar með útvarpsgjaldinu til að koma til móts við það út af því að það er tekið út af kostunarmarkaðnum að stóru leyti. Það er að sjálfsögðu verkefni Alþingis, fjárlagavaldsins, að færa þá fjármuni til í ríkisreikningi eins og efni standa til og á þarf að halda. Þetta eru nokkur hundruð milljónir þegar upp er staðið og það er verkefni þingnefnda og þingsins að hliðra þeim fjármunum til og ákveða nákvæmlega. Ákvörðunin hér snýr að því að útvarpið fái þær mörkuðu tekjur sem því ber lögum samkvæmt af því að þetta er nefskattur sem útvarpsgjald.