141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

lengd þingfundar.

[13:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við höfum ansi góða dagskrá, þunga og mikla, fyrir framan okkur. Tíu brýn mál eru á dagskrá og ekki óeðlilegt að undir lok þingsins geti menn þurft að sitja eitthvað fram yfir það sem segir í þingsköpum hvað varðar lengd þingfundar.

Við höfum nokkrum sinnum á undanförnum dögum samþykkt að vera fram yfir klukkan átta, sem er þessi venjulegi þingfundartími, en það hefur ekki verið farið fram yfir miðnætti. Við höfum hætt um klukkan tíu, sem er ágætis regla. Það er nú nokkuð í höndum stjórnarandstöðunnar, eftir því hvað hún vill tala mikið. Ég sé að hún raðar sér mjög grimmt á fyrsta dagskrármálið af tíu, þannig að ekki er óeðlilegt að kallað sé eftir því að við verðum svolítið lengur, til þess að gefa mönnum tóm til þess að tala eins mikið og þeir telja sig þurfa.