141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ef ég hef skilið þetta rétt erum við að tala um rúmar 200 milljónir, frá árinu 2014. Þá hljótum við að velta því fyrir okkur, þó við getum haft ýmsar skoðanir á frumvarpinu, hvort það sé enn og aftur verið að reyna að ljúka máli á síðustu metrunum sem er kostnaðaraukandi á framtíðinni og þar sem verið er að auka ríkisútgjöld og það án þess að sýna fram á að tekjur komi á móti.

Frumvarpið sjálft, eða innihald þess, er ágætt að flestu leyti, en það er að sjálfsögðu mikilvægt að slá varnagla við þessum útgjaldaauka. Varla ætlast menn til að hægt sé að auka útgjöldin ef ekki er sýnt fram á tekjur á móti.

Fyrst við erum komin í hálfgert öfugt andsvar langar mig að spyrja hv. þingmann út í það hvort þessar rúmar 200 milljónir séu ekki á áætlun ríkisstjórnarinnar og ríkisfjármálaáætlun næstu ára og munu þar af leiðandi bætast í það púkk sem algjörlega á eftir að gera ráð fyrir og finna tekjur fyrir. Það er orðið býsna algengt að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins komi fram að annaðhvort þurfi menn að mæta auknum útgjöldum með hærri sköttum eða niðurskurði annars staðar.