141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að það geti haft áhrif þegar lágmark af þessu tagi er sett inn. Ég held við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að engu að síður verður um að ræða verkefni af sama tagi, hvort sem þau fara fram innan Ríkisútvarps eða utan.

Hvað það varðar vildi ég segja sem svo að mér finnst tillagan vera í þeim anda að Ríkisútvarpið eigi ekki endilega að framleiða efni sitt sjálft, heldur kannski fremur að vera miðill fyrir efni sem uppfyllir ákveðna staðla, ákveðin gæði. Ég held að það sé vel hægt að stíga skrefið í þá átt án þess að það komi á nokkurn hátt niður á stofnuninni. Ég held að það geti þvert á móti eflt hana.

Varðandi tilvísun hv. þingmanns til lagasetningarinnar í menntamálaráðherratíð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er það alveg rétt að þá voru stigin nokkuð róttæk skref í breytingum á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins. Ég studdi þær breytingar sem þá áttu sér stað þó að ég væri ekki endilega alltaf sannfærður í hjarta mínu um að þær breytingar væru til bóta. Ég hef t.d. mikið velt fyrir mér fjármögnunarþættinum og skattheimtunni sem stendur undir stórum hluta starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég hefði haldið að fara þyrfti betur yfir slíka þætti fyrst farið er út í endurskoðun laganna nú.

Hvað varðar almannaþjónustuhlutverkið, sem hv. þingmaður gerði sérstaklega að umtalsefni í tilefni af orðum mínum, vildi ég spyrja hann: Gerir Ríkisútvarpið eitthvað í dag sem það mun ekki geta gert, verði þessi breyting gerð á hlutverki þess samkvæmt lögum?