141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, verið er að skerpa á því hvert raunverulegt hlutverk almannamiðils er, sem er meira og minna kostaður af skattgreiðendum, þ.e. hver hin pólitíska ætlun er með rekstri miðilsins. Eins og ég sagði áðan er markmið tillögunnar í sjálfu sér gott, að kaupa meira af innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum, ég tek undir það. Hvað varðar dagskrá stöðvarinnar er það örugglega bara til bóta eða þarf ekki að draga úr gæðum o.s.frv. En það sem flutningsmenn geta ekki látið ósvarað, eins og þingmaðurinn lét ósvarað áðan þegar þeir flytja þessa tillögu í fullri alvöru hér við 3. umr., er: Hvaða áhrif hefur það róttæka skref að fara úr 6% í 20% af fjárveitingum á stofnunin eins og hún er í dag hvað varðar starfsemina, af því við berum líka ábyrgð á því? Hvað mundi það kosta mikið? Hversu mörg störf þarf að leggja niður innan húss til að kaupa þetta efni? Þeim spurningum verður Sjálfstæðisflokkurinn að sjálfsögðu að svara.