141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeirra spurninga getur hv. þingmaður að sjálfsögðu spurt samnefndarmenn sína, flutningsmenn tillögunnar. Ég er ekki flutningsmaður tillögunnar, ég var að sjá hana í dag. Mér líst hins vegar vel á hana og tel að hún sé umræðunnar virði og vona að við getum átt gott spjall um hana í dag, ég og hv. þingmaður og eins þeir þingmenn sem báru tillöguna fram. En ég held hins vegar að ef við horfum á almannaþjónustuhlutverkið sé svar hv. þingmanns nokkuð lýsandi. Þegar ég spyr: Hvað mun Ríkisútvarpið ekki geta gert sem það gerir í dag verði almannaþjónustuhlutverkið skilgreint með þeim hætti sem verið er að gera í frumvarpinu? er svarið ekkert. Það mun engu breyta. Það mun ekki hafa nein raunveruleg áhrif.

Jafnvel þótt skilgreiningin á hlutverki Ríkisútvarpsins, sem er að finna í frumvarpinu, sé í miklu fleiri orðum og miklu fleiri töluliðum en í núgildandi lögum um Ríkisútvarpið, jafnvel þótt orðaflaumurinn sé miklu meiri er innihaldið það sama, breytingin engin. Hvað er þá verið að koma til móts við í athugasemdum EFTA um nánari skilgreiningu á almannaþjónustuhlutverki? Er það bara að bæta í orðavaðalinn ef það á ekki að breyta neinu í raun og veru?