141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég svaraði nú bara fyrir sjálfan mig í þessu efni, enda er mér ekki kunnugt um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi neina sérstaka stefnu um þetta mál, að minnsta kosti hef ég ekki tekið þátt í umræðum um slíka stefnumörkun.

Ég held hins vegar að ef við horfum á tillögutextann megi spyrja, og ég vona að ég fái tækifæri til þess að spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að því síðar í umræðunni: Er gert ráð fyrir því miðað við tillöguna að það sé algild regla, þ.e. að tímajafna verði allan útsendingartíma sem felst í kynningu á stefnumálum einstakra framboða? Gildir þá einu hvort um er að ræða flokk eins og hv. þingmanns, sem fær miðað við skoðanakannanir meira en fjórðung atkvæða í kosningum, eða framboð sem er hugsanlega tíu sinnum eða 20 sinnum minna? Ég velti því fyrir mér.

Ef skoðanakannanir hafa mánuðum saman sýnt að eitthvert framboð, jafnvel þótt gilt sé, fái ekki nokkurn hljómgrunn í samfélaginu, er þá eðlilegt, segjum síðustu dagana fyrir kosningar, að slíkt framboð fái jafnmikla athygli og þau framboð sem eru líkleg til þess að fá menn kjörna á þing? Það er mjög áhugaverð spurning. Ég held að þarna verði að fara einhverja blandaða leið, það verði að vera fyrir hendi einhver lágmarkskynning á öllum framboðum þannig að gætt sé eðlilegs jafnræðis að því leyti. Á hinn bóginn er ekki óeðlilegt að það sé með einhverjum hætti, bara út frá fréttamati, meira greint frá þeim sem líklegastir eru til þess að takast raunverulega á á vettvangi stjórnmálanna, þeim sem (Forseti hringir.) eru raunverulega leikmenn á vellinum en ekki bara þeim sem lýst hafa yfir áhuga í einhverjum ólympískum anda og eiga svo ekki möguleika á því að skora. (Gripið fram í: Já.)