141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi um fréttaflutning á öllu landinu. Þegar þau mál eru rædd hefur Ríkisútvarpið yfirleitt brugðist mjög illa við, ókvæða við. Við munum eftir því að þingmenn í Suðurkjördæmi voru til dæmis mjög gagnrýnir á það á sínum tíma þegar vinsælum fréttamanni, sem flutti meðal annars fréttir af Suðurlandi, var sagt upp. Ríkisútvarpið hefur brugðist þannig við og einfaldlega sagt: Þetta er okkar ritstjórnarlega sjálfstæði. Það er auðvitað heilmikið til í því. Hins vegar vill svo til að þetta frumvarp talar um Ríkisútvarpið sem almannafjölmiðil og auðvitað leggur það því ákveðnar skyldur á herðar. Ríkisútvarpið hefur þá sérstöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði að sérstök lögskipan er á því hvernig þeir geta aflað sér fjár með skatti sem enginn kemst undan að greiða. Hlutverk þeirra hlýtur því að vera skilgreint talsvert öðruvísi en hlutverk þeirra fjölmiðla sem ekki búa við annars vegar þau lögbundnu réttindi og hins vegar, skyldi maður ætla, hinar lögbundnu skyldur.

Nú tekur maður eftir því að ýmsir aðrir fjölmiðlar hafa greinilega líka séð sér fjárhagslegan hag í því að flytja fréttir af landsbyggðinni. Þess vegna vekur það dálitla undrun að Ríkisútvarpið skuli ekki ganga harðar fram í því, get ég sagt, að leggja rækt við það sem við sjáum auðvitað að er dálítið afskipt í fjölmiðlaumræðunni almennt og er fréttaflutningur af landsbyggðinni.

Af því að hv. þingmaður var að velta því fyrir sér vildi ég spyrja hvort hann sjái fyrir sér hvernig Ríkisútvarpinu sé ætlað að sinna því hlutverki án þess að við göngum yfir hið ritstjórnarlega frelsi fjölmiðilsins, sem er auðvitað mjög mikilvægt að við virðum og ég tek alveg undir. Við hljótum hins vegar að mega hafa skoðanir á því jafnvel þótt við séum stjórnmálamenn, hafa einhverjar skoðanir á því hvernig sú mikla stofnun okkar á að sinna því hlutverki sínu að flytja fréttir af öllu landinu að því gefnu að menn telji eitthvað fréttnæmt að gerast þar.