141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur farið ítarlega yfir málið og það er komið hingað í 3. umr.

Í frumvarpinu eru mjög háleit markmið um hvernig Ríkisútvarpið eigi að rækja starfsemi sína og í markmiðskaflanum segir að það eigi að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í samfélaginu öllu með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og að Ríkisútvarpinu skuli falin framkvæmd hennar eins og nánar sé kveðið á um í þessum lögum. Þar stendur einnig að Ríkisútvarpið sé þjóðarmiðill og skuli rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu og jafnframt að það skuli leggja rækt við íslenska tungu og menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Þetta eru gríðarlega háleit markmið og mikil og ekkert óeðlileg og við gerum ríka kröfu til Ríkisútvarpsins um að það standi undir þeim.

Í II. kafla frumvarpsins er í fjórum atriðum, í sex eða sjö númeraliðum, nánar útskýrt hvernig þetta skuli gert og er það annars vegar til stuðnings fyrir stjórn og útvarpsstjóra og starfsmenn Ríkisútvarpsins og hins vegar fyrir þá sem hafa eftirlit með því hvort markmiðunum verði náð, hvort þetta gangi eftir.

Ég ræddi við 2. umr. um tvo þætti sem ekki hafa ratað inn í nefndarálit milli 2. og 3. umr. frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og ætla því að koma aðeins inn á þau atriði aftur, svo að það sé skýrt að þau sjónarmið hafi komið fram við umræðuna. Tæknilegar hindranir eru eitt af vandamálunum við að fullnægja því háleita markmiði að fjölmiðillinn sé í almannaþágu, þjóðarfjölmiðill. Ekki er alls staðar hægt að ná útvarpssendingum og hvað þá sjónvarpssendingum.

Nú liggur fyrir að leggja á til hliðar hið svokallaða hliðræna kerfi og fara yfir í stafrænt kerfi og í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er meðal annars ákvæði þess efnis að þegar sjónvarp verði komið yfir í stafrænar útsendingar megi fella niður útsendingar sérstakra frétta á táknmáli, þ.e. ef aðalfréttatímar sjónvarpsins verða túlkaðir á táknmáli, sem er meiningin að verði gert og er klárlega til bóta.

En það eru aðrir þættir sem tengjast þessu og ég vil benda á að víða um land, hringinn í kringum landið, eru útsendingar sjónvarps með þeim hætti, og reyndar útvarps sums staðar, og tengist líka símum, að í borgum og bæjum treysta menn í meira og minna mæli á ljósleiðaratengingar, öruggar tengingar inn í hús hjá fólki og því mjög auðvelt að taka á móti og fara inn í þessa nýju tíma, jafnvel með gagnvirku sjónvarpi. En víða um land er þetta aldeilis útilokað enn þann dag í dag og menn verða að treysta á hefðbundið loftnet og í framhaldinu væntanlega á örbylgjuloftnet sem hugmyndin er að senda þessa tækni út á.

Á því eru mjög margir gallar, bæði landslagslegir og veðurfarslegir. Mjög margir þekkja að truflanir eru á útsendingum vegna veðurfars og á sumrin í bæjum vegna trjáa, laufblaða, sem skyggja á útsendingarnar. Því væri mikilvægt, frú forseti, að menn noti tækifærið, til þess eru góðir möguleikar núna, og byggi upp alnetskerfi hringinn í kringum landið á þeim ljósleiðurum sem þar eru og fari í verkefni sem fyrirtækið Míla hefur meðal annars talað fyrir og hefur gengið undir vinnuheitinu Ljós í fjós. Það snýst fyrst og fremst um það að ljósleiðaratengja alla bæi á Íslandi, ljósnetsvæða eins og verið er að gera við borgir og bæi, þorp og kaupstaði. Hægt er að fara með sendingarbúnaðinn inn í kassa í bæjargötu og nýta koparstrengina þar sem gætu borið nægilega mikið magn af þessum upplýsingum til að hægt sé að taka á móti sjónvarpssendingum auk alls annars efnis sem við nýtum netið í.

Varðandi dreifbýlið þá þyrfti að ljósleiðaratengja það og það er hægt. Sýnt hefur verið fram á að það sé hægt fyrir mun lægri upphæðir en menn hafa hingað til verið að tala um. Fyrir landið allt erum við sjálfsagt að tala um á bilinu 4,5 til 5,5 milljarða, sem eru vissulega verulegar upphæðir. Ég nefni þetta hér vegna þess að sjónvarpið sjálft er á leiðinni að endurnýja senda fyrir fleiri hundruð milljónir og ég held að nýta ætti þetta tækifæri þannig að sjónvarpið og útvarpið færu inn í þetta kerfi. Þar yrði sparnaður hjá Ríkisútvarpinu sem mundi koma að þessu verkefni og gera það enn álitlegra. Þá fyrst væri möguleiki fyrir Ríkisútvarpið að standa undir því nafni að vera fjölmiðill í almannaþágu þar sem allir landsmenn gætu nýtt sér útvarps- og sjónvarpssendingar þess. Þetta er nú það sem snýr að hinni tæknilegu hlið og ég vil gjarnan að það komi fram í þessari ræðu úr því að það var ekki í nefndarálitinu.

Í breytingartillögum nefndarinnar við 2. umr. og í umfjöllun í nefndarálitinu er ekki nógu skýrt fjallað um uppbyggingu á svæðisútvarpinu, eins og fram kom í umræðum fyrr í dag, í orðum hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og andsvörum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Það er rétt, sem þar kom fram, að á Suðurlandi setti Ríkisútvarpið til að mynda upp svæðisútvarp fyrir þó nokkrum árum, það starfaði mjög stutt og var síðan lagt niður. Þá var byggt á því að fréttaritari væri á staðnum. En í vetur sem leið sagði Ríkisútvarpið upp starfsmanni sínum. Þegar við þingmenn kjördæmisins höfðum skoðun á því leit Ríkisútvarpið því miður þannig á það að þingmenn væru að blanda sér í innri stjórn starfsmannahalds stofnunarinnar. Það var auðvitað ekki meiningin, heldur vakti það fyrst og fremst fyrir þeim að þessi þjónusta væri fyrir hendi. Stofnunin hefur ritstjórnarlegt frelsi og það er fréttastjórans eða útvarpsstjórans að ráða starfsmannamálum, að ráða því hver er ráðinn til starfa og á hvaða stað.

Okkur fannst miður að Ríkisútvarpið hefði ekki þá stefnu — ég vil koma því hér að og hefði viljað sjá það í nefndarálitinu — að tryggt yrði að um allt land væri í það minnsta fréttaritari sem hefði þann starfa frá hendi Ríkisútvarpsins að flytja fréttir af viðkomandi svæði. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að menn telji sig geta dekkað hluta af landinu héðan frá Reykjavík, frá aðalstöðvunum, verður það aldrei gert á sama hátt eins og ef starfsmaðurinn býr á svæðinu. Ég nefndi það sem dæmi að þegar við framsóknarmenn héldum kjördæmisþing 12. janúar sl. — þar voru á bilinu 400–500 manns saman komnir til að skipa á lista, fólk sem kom hvaðanæva úr kjördæminu, frá Suðurnesjum, Reykjanesi, austan af Hornafirði og af öllu Suðurlandi — sá Ríkisútvarpið ekki ástæðu til að vera með fréttaritara á staðnum, þó svo að þar væri annað stærsta stjórnmálaaflið á þessu svæði, þá í það minnsta, að halda kjördæmisþing sitt. Ég er sannfærður um að hefði slíkur fundur verið haldinn hér á höfuðborgarsvæðinu, 400–500 manns, hefði fréttastofan sent starfsmann sinn á staðinn.

Það er bara þannig að þó að menn vilji vel er ekki alltaf hægt að dekka allt og þetta voru nú ekki margir kílómetrar að skreppa, 50 kílómetrar eða svo, og margir sem fara þá leið á hverjum degi. Það eru mjög sterk rök fyrir því að fréttaritari sé á hverju svæði og þá helst með starfsemi eins og er á Akureyri og var til lengri tíma bæði á Egilsstöðum og á Ísafirði. Kannski koma þeir tímar aftur að Ríkisútvarpið telji það hentugra að uppfylla þessi háleitu markmið með því að reka slíkar svæðisstöðvar með fréttariturum sem geta þá sinnt nærfréttum. Við sjáum það til að mynda á þeim þáttum sem Ríkisútvarpið er með — Landinn er með vinsælasta sjónvarpsefni og á 365 miðlum hefur fréttastjórinn, Kristján Már Unnarsson, verið með ágætisþætti — að þau innslög sem koma víða af landsbyggðinni eru mjög áhugaverðar fréttir, ekki endilega vegna þess að eitthvað gangi brösuglega, að það séu brunar eða einhver vandræðagangur, heldur eru fréttir af mannlífinu á landinu öllu einfaldlega áhugaverðar. Við erum bara 320 þúsund hræður í þessu ágæta landi okkar og viljum gjarnan geta fylgst hvert með öðru á jákvæðan hátt og kallað er eftir því að fréttir séu ekki bara einhverjar hörmungarfréttir. Ég held að þessir fréttatímar séu nauðsynlegir og til þess að þeir verði áhugaverðir þarf það til að þær fréttir flytji staðkunnugir heimamenn eða í það minnsta aðilar sem starfa á því svæði.

Nú gengur hratt á tíma minn, frú forseti. Ég ætlaði reyndar að fjalla um fleiri þætti. Ég náði ekki í ræðu minni við 2. umr. að fjalla um skipun í stjórn, það flókna ferli að skipa eigi valnefnd — allsherjar- og menntamálanefnd tilnefni þrjá og Bandalag íslenskra listamanna tilnefni einn og samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefni einn og síðan sé hlutverk þessarar valnefndar að tilnefna fimm fulltrúa í stjórn og fimm til vara. Þetta er talsvert flókið ferli. Ég geri mér grein fyrir því hvað vakir fyrir flutningsmönnum eða þeim sem sömdu frumvarpið, þ.e. að reyna að rjúfa tengsl við stjórnmálin, og ég held að það sé skynsamlegt. Eins og kemur fram í nefndarálitinu, þar sem fjallað er um hinar fjárhagslegu breytingar sem ég verð kannski vegna tímaskorts að koma inn á síðar í dag í annarri ræðu.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessa er það álit meiri hlutans að nauðsynlegt sé að Ríkisútvarpið hafi markaðar skatttekjur með því móti að innheimtar tekjur af núverandi útvarpsgjaldi renni óskertar til félagsins.“

Þetta er vissulega í samræmi við stefnu okkar framsóknarmanna, en sú umræða sem verið hefur í fjárlaganefnd og sjónarmið sem koma frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins eru á annan veg og þetta er umræða sem þarf stöðugt að vera í gangi. Ég tek undir það að til þess að þetta sjálfstæði sé tryggt er það kannski ekki óskynsamlegt þetta flókna ferli við stjórnarvalið. Á sama hátt tel ég það vera skynsamlegt, alla vega nú um stundir, að Ríkisútvarpinu séu markaðar tekjur og það sé hluti af því að tryggja sjálfstæði þess. Um leið gera menn þá mjög ríkar kröfur til þess að þeim markmiðum sem koma fram í upphafsgrein laganna sé fylgt eftir af miklum þunga hjá Ríkisútvarpinu.

Frú forseti. Ég verð að ljúka máli mínu þar sem tími minn er á þrotum. Ég verð að óska eftir að verða settur á mælendaskrá aftur svo að ég geti fjallað um breytingartillögur og fleiri þætti er tengjast frumvarpinu.