141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka góðar spurningar. Fyrst var spurt hvort hlutverk Ríkisútvarpsins væri enn of víðtækt miðað við hvernig það birtist í frumvarpinu.

Í raun er ég þeirrar skoðunar að það hlutverk sem hér er lýst sé ekki of víðtækt en hins vegar vantar svolítið upp á forgangsröðunina og nánari útlistun á því hvernig sé best að rækja hlutverkið. Allt er frekar almennt orðað og það má kannski segja að það sé hlutverk Ríkisútvarpsins að útfæra það nánar. Ég tel að tilefni sé til þess vegna sérstakrar stöðu Ríkisútvarpsins að við sem ræðum það og framlög til þess ræðum líka lýðræðislega hvernig þeim fjármunum sé best varið. Þar tek ég undir með hv. þingmanni um mikilvægi innlends efnis.

Í fyrsta lagi er auðvitað mikil eftirspurn eftir innlendu efni. Við sjáum það á því að innlent efni, hvort heldur sem litið er til sjónvarpsþátta eða vinsældalista Rásar 2 yfir tónlist, er jafnan vinsælast. Fólk hefur mestan áhuga á nærumhverfi sínu og því er eðlilegt að Ríkisútvarpið bregðist við því með því að hafa sem mest framboð af slíku efni.

Þessu tengt tel ég ástæðu til að Ríkisútvarpið aðstoði og vinni með öðrum, t.d. stofnunum eins og Stofnun Árna Magnússonar, sem hv. þingmaður nefndi, eða kvikmyndagerðarmönnum sem þurfa að leita í gagnasafn Ríkisútvarpsins, að Ríkisútvarpið í rauninni ýti undir að bæði stofnanir (Forseti hringir.) og einstaklingar utan stofnunarinnar geti unnið sem mest með henni.