141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil rök hv. þingmanns um hvernig sérstaða og fjölbreytileiki eigi að fara saman og ég er alveg sammála því mati. Þá kem ég að því sem ég náði ekki að klára áðan sem var spurningin um Hafnarfjörð, hvort Hafnarfirði sé nógu vel sinnt. Þar vil ég koma inn á atriði sem ég náði ekki að nefna í ræðunni minni og er afleiðing af tækniþróuninni sem Ríkisútvarpið, eins og aðrir fjölmiðlar, þurfa að bregðast við.

Nú hafa ýmsar erlendar fréttastöðvar, t.d. CNN og BBC held ég að mér sé óhætt að segja, tekið upp á því að gera í raun hvern sem er að fréttamanni hjá sér með því að auglýsa eftir ábendingum og jafnvel því að fólk sendi inn eigið efni, taki upp á myndavélina sína eða símann og sendi inn. Það er ástæða til að hvetja Ríkisútvarpið til þess að nýta sér það sem og Hafnfirðinga til að senda sem mest af fréttum úr Hafnarfirði og láta vita af því sem er að gerast þar. Það mundi jafnvel til lengri tíma litið skapa möguleika á því að hafa sérstaka undirsíðu á vef Ríkisútvarpsins bara um Hafnarfjörð þar sem Hafnfirðingar gætu sent inn efni, myndbönd, sögur o.fl.

Það leysir hins vegar ekki umfjöllun um gang mála á landsbyggðinni vegna þess að því til viðbótar þarf auðvitað að vera starfsmaður stofnunarinnar sem heldur utan um hefðbundinn fréttaflutning. Við getum ekki farið að reka Ríkisútvarpið eins og Wikipediu þar sem allt efni er sent inn frá sjálfboðaliðum. Þessu þarf að blanda og í því felst sú skemmtilega samþætting sérstöðu og fjölbreytileika sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi áðan, blöndu sem á að skapast í Ríkisútvarpinu.