141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get svo sem ekki svarað fyrir ríkisstjórnina sem kom á undan ríkisstjórn hv. þingmanns. Hann heldur því fram að sú stjórn hafi ætlað sér að einkavæða Ríkisútvarpið. Það er vissulega eitthvað sem við framsóknarmenn höfðum áhyggjur af, að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mundu vilja einkavæða Ríkisútvarpið en ég get ekki svarað fyrir þá ríkisstjórn.

Hins vegar liggur fyrir hvað núverandi ríkisstjórn varðar að hún setti lög um fjölmiðla árið 2011 og þar var ekki tekið á því máli sem hv. þingmaður ætlast til að verði afgreitt við lok þessa kjörtímabils. Hvers vegna var ekki tækifærið notað 2011 þegar lög voru sett um fjölmiðla til að taka á því atriði sem við erum sammála um, ég og hv. þingmaður, að sé ákaflega mikilvægt? Er það ekki af því að þessi ríkisstjórn hefur ekki sinnt landsbyggðinni nógu vel (Gripið fram í.) og vanrækt hana? Það er auðvitað það sem virðist blasa við en það verður vonandi bót á því, virðulegur forseti, áður en langt um líður.