141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að beina einni fyrirspurn til hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem er formaður allsherjar- og menntamálanefndar. Spurningin snýr að því að Ríkisútvarpinu er skylt að birta gjaldskrá, sem er í 4. mgr. 7. gr. og vitnað er til í meirihlutaálitinu, til að tryggja jafnræði í afsláttarkjörum fyrir sambærilegt magn viðskipta og þar fram eftir götunum. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því hvers vegna það er mikilvægt, þ.e. vegna þess að Ríkisútvarpið er með um 4 milljarða forskot á aðra fjölmiðla. Þetta gæti líka verið dálítið tvíbent. Ef Ríkisútvarpið eða þeir sem eru í samkeppni — mig langaði einmitt að leita eftir viðbrögðum frá hv. þingmanni hversu strangt þetta er og hvernig umræðan hafi verið í nefndinni um það sem snýr að þeim hlutum — þurfa að birta gjaldskrána alveg. Hversu bundið er Ríkisútvarpið af gjaldskránni? Það væri ágætt ef það kæmi fram í andsvörum.

Ég verð að segja líka, út af þeim orðaskiptum sem voru í andsvörum og snúa að mörkuðum tekjustofnum og hvort þeir rynnu í rauninni beint til stofnunarinnar eða ekki, að mjög mikilvægt er að það komi fram, þó svo ég hafi nefnt það áður í þessari umræðu, að í umsögn fjárlaganefndar til allsherjar- og menntamálanefndar er það rökstutt á þann hátt að við sjáum ekki ástæðu til að breyta núverandi fyrirkomulagi og að það eigi ekki að hafa áhrif á sjálfstæði Ríkisútvarpsins, vegna þess að þingið kemur líka að því hvernig útvarpsgjaldið muni skila sér, þ.e. hverjir séu undanþegnir og hvort það séu verðlagsuppbætur eins og við sáum við gerð fjárlaga 2013, þá gefur það auðvitað augaleið.

En ég verð þó að árétta, þar sem ég er í minni seinni ræðu við 3. umr. og mun ekki fjalla um þetta mál meira hér vegna þess að umræðunni er að ljúka, mikilvægi þess að menn forgangsraði í ríkisfjármálum. Þar með er ég ekki að segja að ég geri mér ekki grein fyrir því mikilvæga starfi sem Ríkisútvarpið vinnur meðal annars vegna almannavarnaþáttar o.s.frv., ekki má skilja það þannig. Hins vegar er mikilvægt að átta sig á því, það kemur mjög skýrt fram í frumvarpinu, að frumvarpið rúmast ekki innan ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Það er alveg ljóst að ef menn eyða 600 milljónum í Ríkisútvarpið þá er ekki hægt að nota þær í aðrar framkvæmdir. Menn nota ekki þá 3,4 milljarða sem eiga að fara í Hús íslenskra fræða til að setja í Landspítalann. Menn nota ekki þær 500 milljónir sem eiga að fara í að setja upp náttúruminjasýningu þrátt fyrir, svo vitlaust sem það er, að ekki sé búið að afla heimilda frá Alþingi til að reka þá sýningu heldur er einungis búið að taka ákvörðun um að setja upp 500 millj. kr. sýningu sem er ekki vitað hvort Alþingi veitir fjármuni til að reka.

Það er gríðarlega mikilvægt í stöðu ríkissjóðs og ríkisfjármálanna að tekin verði hreinskipt umræða um hvar eigi að forgangsraða. Ef við gerum það ekki förum við fram af hengiflugi, þá höfum við enga peninga til að reka Landspítala eða annað. Það er ekki flóknara en það í mínum huga.

Ég er ekki að gera lítið úr því mikilvæga verkefni sem Ríkisútvarpið sinnir en hér er klárlega um 600 millj. kr. aukningu úr ríkissjóði til Ríkisútvarpsins að ræða. En á sama tíma er sá ágæti fjölmiðill að flytja fréttir af neyðarástandi á Landspítalanum. Menn verða að taka hreinskipta umræðu um forgangsröðun í ríkisfjármálum. Þetta gengur ekki lengur.

Frumvörp eru lögð fram um tugi milljarða útgjaldaaukningu á síðustu dögum þingsins, þegar núverandi ríkisstjórn er að fara frá, um það hvernig á að ráðstafa inn í næsta kjörtímabil. Ef þetta á að ganga eftir förum við fram af hengiflugi því að ríkissjóður skuldar með skuldbindingum um 2.000 milljarða og það sígur enn á ógæfuhliðina. Það er hinn mikli árangur sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð. Á þessu ári verðum við að borga 90 milljarða í vexti. Á næstu fjórum árum munum við borga 400 milljarða bara í vexti.

Það gengur ekki lengur að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, margir hverjir, geri sér ekki grein fyrir því og forðist að taka þá umræðu sem nauðsynleg er um forgangsröðun í ríkisfjármálum.