141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki skoðað sérstaklega þróunina á undanförnum árum eða missirum, sem hv. þingmaður spyr mig um.

Fyrst kemur upp í hugann að fréttaritara á Suðurlandi var sagt upp og við þekkjum þá umræðu sem var í kringum það, en sá ágæti maður var þá snarlega ráðinn yfir á annan fjölmiðil. Ég held hins vegar að það sé gríðarlega mikilvægt að styrkja svæðisstöðvarnar sem eru úti á landsbyggðinni af því að þetta er útvarp allra landsmanna, það gefur augaleið. Þá kemur upp í huga minn þáttur, Landinn, sem við horfum væntanlega töluvert á báðir, hv. þingmaður og ég. Sá þáttur hefur flutt fréttaskýringar og sagt frá mannlífinu úti um allt land, alveg sama hvort það er hér á höfuðborgarsvæðinu eða á ystu annesjum, eins og stundum er sagt. Þar hefur Ríkisútvarpið staðið sig vel að mínu mati en ég hef ekki skoðað það sérstaklega.

Ég hef líka sagt það á fundum fjárlaganefndar og get alveg sagt það í þessum stól þó að það komi þessu máli ekki við, að fréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson á Stöð 2 hefur verið mjög ötull við að flytja fréttir af landsbyggðinni og sérstaklega af því sem snýr að vegamálum. Hann hefur flutt mjög ítarlegar fréttir þaðan. Ég hef sagt að ég teldi eðlilegra að borga Kristjáni Má Unnarssyni fréttamanni en upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar fyrir þann fréttaflutning sem er af landsbyggðinni og því sem er að gerast í vegagerð. En ég hef þó ekki skoðað sérstaklega hver þróunin hefur verið á undanförnum árum varðandi fréttir af landsbyggðinni.