141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og tek undir með honum varðandi fréttaflutning Kristjáns Más Unnarssonar af málefnum landsbyggðarinnar. Hann hefur sinnt því mjög vel og ekki síður en Ríkisútvarpið. Ég held að það sé ákveðið áhyggjuefni, rétt eins og hv. þingmaður kom inn á, varðandi fréttir af samgöngumálum o.fl.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í annað sem tengist þessu máli. Hér er m.a. komið inn á mikilvægi Ríkisútvarpsins út frá lýðræðislegum sjónarmiðum þegar kemur að kosningum og öðru, að sé tryggð jöfn umfjöllun um einstök framboð og að allir hafi þar aðgang o.s.frv. Hefur hv. þingmaður kynnt sér breytingartillögu þá sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti við málið? Hún hljóðar svo, með leyfi frú forseta:

„Á eftir 2. málsl. 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi:

„Einnig skal Ríkisútvarpið veita öllum gildum framboðum til Alþingis jafnan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín án endurgjalds.“

Tillagan er lögð fram í þeim tilgangi að lítil framboð, ný framboð og aðrir eigi kost á því að kynna stefnumál sín og að Ríkisútvarpið eigi að þjóna hlutverki í því efni. Þetta er ekki einkarekinn fjölmiðill sem þjónar bara eigendum sínum. Hann á að þjóna okkur öllum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í afstöðu hans til breytingartillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur: Telur hv. þingmaður mikilvægt að setja slíkt ákvæði inn eða telur hann að þetta atriði sé nægilega tryggt í frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna?