141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um breytingartillögu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur kynnt hér. Hún er að mörgu leyti mjög athyglisverð og reynir að svara því ákalli sem snýr að jafnræði milli framboða, sérstaklega hvort ný framboð fái jöfn tækifæri og þau sem fyrir eru. Þau hafa kvartað yfir því að þau hafi ekki jafna möguleika til að kynna sig og hin. Þau hafa líka kvartað yfir því sem snýr að fjármagni og öðru slíku. Það er mikilvægt að allir sitji við sama borð hvað það varðar.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, án þess að ég sé búinn að kynna mér nægilega vel tillögu hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, að maður verði að treysta forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins til að sjá til þess að jafnræði muni ríkja þarna á milli. Við vitum að kvartað var yfir þessu í síðustu kosningum og væntanlega mörgum öðrum þar á undan. Það getur vel verið að ég styðji tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, hún er mjög athyglisverð. Þar reynir hv. þingmaður að bregðast við þeirri gagnrýni og leggur því fram tillögu sína. Ég lít á það sem jákvætt skref í þá átt.

Það er auðvitað mikilvægt, og við erum öll sammála um það sem búum í lýðræðisríki, að allir hafi sem jafnastan aðgang að fjölmiðlum. Það má vera mjög slæmt ef sumir upplifa misrétti í þessum efnum, eins og gerðist reyndar síðast, þá kvörtuðu menn yfir því. En við verðum líka að athuga að eftir því sem framboðunum fjölgar verður sífellt erfiðara að setja forustumenn allra framboða í eitt sett, kannski 20 oddvita, þannig að þetta er vandrataður vegur.