141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forgangsröðun í ríkisfjármálunum. Mér er ljúft og skylt að svara hv. þingmanni hvað það varðar. Ég gagnrýndi t.d. mjög mikið að á sama tíma og E-deildinni var lokað á Akranesi, sem kostaði um tæpar 100 millj. kr., voru útgjöld til listamannalauna hækkuð um sömu upphæð. Það kalla ég ranga forgangsröðun. Er það vegna þess að ég sé á móti listamönnum? Nei. Ég er á móti því að á sama tíma og skorið er niður í heilbrigðisþjónustunni séu útgjöldin aukin á öðrum stöðum. Ég hef gagnrýnt það varðandi forgangsröðun í ríkisfjármálunum að útgjöld séu aukin til viðkomandi stofnana. Er rétt að gera það? Hv þingmaður minntist á að ég ætti sæti í hv. fjárlaganefnd. Við höfum til að mynda verið að fara yfir mál varðandi hlutafélag vegna stofnunar nýs landspítala. Það er mjög áhugavert að hlusta á forsvarsmenn spítalans lýsa þeim aðstæðum sem það ágæta fólk sem vinnur á Landspítalanum, höfuðsjúkrahúsinu, býr við. Á sama tíma og við ræðum það tökum við skóflustungu að Húsi íslenskra fræða fyrir 3,4 milljarða, ég sá það í fréttunum í gær. Það kalla ég ranga forgangsröðun. Að auka útgjöld til Ríkisútvarpsins um 600 millj. kr. á sama tíma og hlutirnir eru með þessum hætti, það kalla ég ranga forgangsröðun. Er það vegna þess að ég er á móti Ríkisútvarpinu? Nei. Ekki hefur verið sýnt fram á það í meðförum þessa máls að þessarar útgjaldaaukningar sé þörf hjá Ríkisútvarpinu. Ég kallaði margsinnis við 2. umr. eftir greiningunni á þörfinni fyrir útgjaldaaukningunni. Nei, það er bara þetta prinsipp um að minnka pólitísk afskipti af fjárhagslegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins með því að setja gjaldstofninn eða gjaldið allt inn. Það eru ákveðin rök í því. En hefur verið sýnt fram á að það breyti einhverju hvort það er gert með þessum hætti eða öðrum? Nei, það er ekki skoðun mín. Þetta kalla ég ranga forgangsröðun.