141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja: Öll þau frumvörp sem lögð eru fram og fela í sér útgjaldaaukningu inn á næsta kjörtímabil samrýmast ekki ríkisfjármálastefnu sömu ríkisstjórnar og leggur frumvörpin fram. Á meðan staða ríkissjóðs er eins og hún er með þessa gríðarlegu skuldsetningu og vaxtagreiðslur upp á 90 milljarða á þessu ári, 400 milljarða á næstu fjórum árum, gefur það augaleið að það verður að forgangsraða. Ég hef ekki orðið var við að ekki sé breið samstaða um það að forgangsraða í innviði samfélagsins, þ.e. grunnstoðir þess, löggæsluna, heilsugæsluna, almannatryggingakerfið o.s.frv. En á sama tíma og við skerum þar niður aukum við útgjöldin á öðrum stöðum. Ég hef spurt mig þeirrar spurningar: Hvað mundi t.d. gerast ef Hús íslenskra fræða yrði ekki byggt? Aðferðafræðin var alveg hreint með ólíkindum vegna þess að kostnaðurinn er 3,4 milljarðar og ríkið setur einungis 150 millj. kr. á þessu ári inn í það. En næsta ríkisstjórn verður að standa skil á rúmlega 2,2 milljörðum inn á næstu tvö árin vegna þess að Happdrætti Háskóla Íslands var látið borga sinn hluta að fullu inn á þetta ár. Þannig er skóflustunguáætlun ríkisstjórnarinnar hugsuð, til að sýna hvað er verið að gera og baða sig í fjölmiðlum.

Það er alveg klárt í mínum huga að það verður að hlúa að heilbrigðismálunum og líka eldri borgurum og öryrkjum, og grunnstoðum eins og löggæslunni o.s.frv. En á sama tíma og við erum með tóman ríkissjóð og rúmlega það getum við ekki sett einhverja milljarða og milljarðatugi í svona vitleysu eins og hér um ræðir. Það gefur algerlega augaleið. Ég hef stundum líkt því við það fólk sem á ekki fyrir mat fyrir börnin sín en fer fyrst út í búð og kaupir sér áfengi og tóbak. Síðan uppgötvar það að því miður eigi þeir ekki peninga til að kaupa mat fyrir börnin. Það er slík forgangsröðun sem verður að breyta í ríkisfjármálunum, annars fer það allt lóðbeint fram af hengifluginu.