141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þeirri ágætu umræðu sem var hér í andsvörum við ræðu síðasta hv. ræðumanns vil ég í upphafi máls míns taka heils hugar undir það sjónarmið sem fram kom hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni varðandi forgangsröðunina. Ég er ekki að kasta rýrð á hlutverk Ríkisútvarpsins með neinum hætti eða á það ágæta starfsfólk sem þar vinnur þegar ég segi að mér finnist að það hljóti að vera hægt að forgangsraða betur og reka ríkisútvarp með miklum sóma án þess að í það fari allir þeir fjármunir sem hér er um að ræða.

Reyndar er annað sjónarmið sem ég hef ekki heyrt mikið rætt um varðandi fjármögnunina. Útgjaldaaukningin eða aukið fjármagn sem Ríkisútvarpinu er ætlað með þessu frumvarpi hefur verið rætt ítarlega og það er nefnt í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofunnar 875 millj. kr. en ég heyri að það er miðað við frumvarpið. Í fjárlögum er þessi tala að ég hygg 600 millj. kr. Í ljósi athugasemda útvarpsstjóra, sem hefur bent á að þrátt fyrir að nefskatturinn skili ákveðnum upphæðum í ríkissjóð þá eru framlög til Ríkisútvarpsins skert miðað við tekjur af nefskattinum, þá segir í kostnaðarumsögninni með frumvarpinu að útvarpsgjaldið í fjárlagafrumvarpinu árið 2013 hafi verið áætlað 4.380 millj. kr., sem skilar sér kannski ekki allt, en í sama frumvarpi eru framlög til Ríkisútvarpsins áætluð 3.195 millj. kr. Þarna er þessi munur upp á 875 millj. kr.

Ég get vel skilið gagnrýni útvarpsstjóra sem er að reka stofnun og vill eins og aðrir ríkisforstjórar gera það af miklum metnaði. Ég get vel skilið að hann bregðist við og svari því til að þetta sé ekki beinlínis útgjaldaauki heldur sé þarna verið að veita Ríkisútvarpinu þær tekjur sem skattheimtan, nefskatturinn, gefur. Það eru kannski ekki margir hér inni sem ég get spurt þar sem hér sitja tveir ágætir stjórnarandstæðingar en enginn sem ber ábyrgð á þessu máli en mig langar til að spyrja samt í þeirri von að einhver sitji og hlusti á skrifstofum sínum: Fyrst fólk telur að Ríkisútvarpið þurfi ekki á öllum þeim peningum að halda sem nefskatturinn gefur, hefur einhverjum dottið í hug sá möguleiki að lækka nefskattinn? Hefur það einhvern tíma komið fram sem möguleiki? Ég óttast, verandi með þessa vinstri ríkisstjórn við völd, að það hljómi sem fjarstæðukenndur málflutningur í þeirra augum. Þetta er fjármögnun sem við sem skattgreiðendur höfum ekkert val um hvort við borgum eða ekki. Þetta er ríkisútvarp í almannaþágu og ólíkt því sem gerist með fjölmiðla á einkamarkaði, hvort sem það er Stöð 2 eða miðlar 365-fyrirtækisins eða Skjárinn eða sportrásir eða annað það efni sem við höfum möguleika á að kaupa, þá höfum við ekkert val um þetta. Það er ekki lengur þannig, þetta er ekki afnotagjald. Þetta er gjald sem leggst með ákveðnum aðferðum á einstaklinga og heimilin í landinu. Við höfum ekkert val.

Ég er almennt þeirrar skoðunar í minni hugmyndafræði að val sé gott og að við eigum að beita okkur fyrir því að fólk hafi val. Ég get alveg fallist á ákveðið hlutverk sem Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna. Almannaöryggi, viðhald menningarlegrar arfleifðar og að gæta að menningarminjum og -efni, sem ég verð að segja að er eitt helsta skemmtiefnið í Ríkisútvarpinu, finnst mér. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með gömlum þáttum og gömlum myndum af öllu tagi, sérstaklega innlendri dagskrárgerð. Ég get alveg fallist á að þarna er um gríðarlega mikilvægt hlutverk að ræða. En ég held að dæmin í gegnum tíðina hafi sýnt að öryggishlutverkinu er ekki fullnægt. Við getum nefnt Suðurlandsskjálftana 17. júní upp úr aldamótum, ég man ekki ártalið, og fleiri dæmi þar sem Ríkisútvarpið stóð sig ekki sem skyldi.

Í 4. tölulið 3. gr. frumvarpsins segir að Ríkisútvarpið skuli dreifa efni til alls landsins og næstu miða með að minnsta kosti tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring. Þrátt fyrir þetta ákvæði held ég að allir sem á þetta hlýða kannist við að hafa einhvern tíma verið staddir einhvers staðar á Íslandi þar sem hvorki næst útvarp né sjónvarp þannig að þessu skilyrði er ekki fullnægt. Við sem erum fulltrúar hinna dreifðu byggða hér á þingi heyrum mjög oft kvartanir yfir því að Ríkisútvarpið náist ekki á tilteknum stöðum. Það má bæta öryggishlutverkið en þá er spurningin: Hverju geta aðrir sinnt? Hvaða hlutverki af þessum ótal atriðum sem nefnd eru hér í kaflanum um hlutverk og skyldur geta aðrir einkareknir miðlar sinnt?

Ég verð að viðurkenna að ég held að það séu bara nokkuð margir. Með tilliti til hlutverksins að sinna fréttaflutningi af landsbyggðinni og koma með efni tengt hinum dreifðu byggðum þá leyfi ég mér að fullyrða að því er ekki síður sinnt, akkúrat í augnablikinu að minnsta kosti, af Stöð 2 eða þeim sem þar vinna. Ég vil sérstaklega nefna Sunnlendinginn Magnús Hlyn Hreiðarsson sem stendur sig gríðarlega vel á Stöð 2 eftir að fréttaritarastarf Ríkisútvarpsins á Suðurlandi var lagt niður. Auðvitað er þetta mikilvægt hlutverk en er það eitthvað sem þarf að binda í lög og þurfum við að hafa Ríkisútvarp á kostnað skattborgarans, sem hefur ekki val um það hvort hann greiðir skattinn eða ekki? Er það algerlega nauðsynlegt? Ég leyfi mér að efast um það.

Ég hef líka áhyggjur af því ef við horfum til unga fólksins. Ég sé að unga fólkið í dag horfir ekki á það sem er í boði í sjónvarpinu. Ef því líkar ekki við það sem er í boði þá fer það bara að horfa á eitthvað annað. Það er ekki eins og þegar maður var sjálfur að alast upp að allir áttu að hafa hljóð kl. 6 og kl. 7 þegar fréttir voru í útvarpi. Nú velja krakkarnir og unga fólkið miklu meira heldur en mín kynslóð, þó ég sé ekki orðin mjög miðaldra. Það velur sér hvað horfir á og ég er ekki endilega viss um að það sé akkúrat það sem er í boði í Ríkisútvarpinu.

Mér finnst að í stað þess að koma með svona frumvarp hefði átt að leggjast yfir þessi mál með það að markmiði að huga að samkeppnishlutverkinu, eins og hefur oft verið bent á af Samkeppnisstofnun og Eftirlitsstofnun EFTA. Hér eru einkaaðilar bæði í kvikmyndagerð og sjónvarpsþáttagerð, sjónvarpsútsendingum og alls konar veffjölmiðlun. Þar er unnið gróskumikið starf, sjálfsprottið og mjög fjárfrek starfsemi er að keppa við stærðarinnar ríkisstofnun sem fær alltaf trygga fjármögnun, jafnvel þótt oft heyrist kvartað af þeim bænum líka, einmitt vegna þess að allar tekjurnar sem af skattinum eru renna ekki til stofnunarinnar. En ég trúi því að hægt sé að reka Ríkisútvarpið með hagkvæmari hætti og þau sjónarmið sem hafa alltaf verið sett fram eru reifuð í nokkrum umsögnum varðandi afþreyingarhlutverkið. Er það hlutverk ríkissjónvarpsins að sýna bandaríska og breska afþreyingarþætti sem aðrar sjónvarpsstöðvar eru líka með? Á að keppa um það hlutverk? Mér finnst mjög réttmætt sjónarmið að takmarka eigi hlutverk Ríkisútvarpsins miklu meira en nú er gert.

II. kafli frumvarpsins fjallar um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins. Í einni umsögninni var gagnrýnt að almannaþjónustan þar þýddi að nánast allt væri innifalið. Ekki er gerð nein tilraun til að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins frá því sem nú er heldur er fyrst og síðast verið að lista upp nánast allt milli heima og geima. Og það er miður. Mér finnst að hér sé verið að vannýta tækifæri til að forgangsraða fjármunum betur. Ég ítreka það sem fram kom í ræðu og umræðum þess sem talaði á undan mér og tek undir það heils hugar. Við verðum og okkur ber hreinlega skylda til þess, við hvert mál sem við fjöllum um, ræðum og samþykkjum hér á hinu háa Alþingi þegar staða ríkisfjármála er með þeim hætti eins og nú er, að velta við hverri krónu. Margt má gera við þær 600 millj. kr. sem hér er lagt til að fari til viðbótar í rekstur Ríkisútvarpsins. Ég leyfi mér að fullyrða að hægt sé að reka þetta batterí með því að draga úr og afmarka hlutverk þess betur fyrir mun minni fjármuni og með því að ná að skapa meiri sátt um starfsemi Ríkisútvarpsins.

Maður hefur séð og heyrt af ríkisreknum stöðvum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, ég nefni til dæmis National Public Radio, NPR-útvarpsstöðina í Bandaríkjunum, þar sem er fréttaflutningur og þáttagerð alla daga. Þar er ekki ágreiningur um (Forseti hringir.) að ríkisstyrktur fjölmiðill keppi við einkaaðila vegna þess að verið er að sinna markaði sem (Forseti hringir.) einkaaðilarnir hafa ekki verið að sinna. Það tækifæri tel ég að hafi farið forgörðum (Forseti hringir.) hér, að afmarka þetta hlutverk og ég tel það mjög miður.