141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka til máls um þá breytingartillögu sem sú er hér stendur flytur og útskýrði í nokkuð ítarlegu máli fyrr í dag. Þá fékk ég þá spurningu frá hv. þm. Skúla Helgasyni, sem er talsmaður þessa máls, hvort breytingartillagan sem liggur núna fyrir væri nógu skýr, þ.e. hvort framboð sem bjóði einungis fram í einu kjördæmi eigi að fá jafnmikinn tíma í gjaldfrjálsum útsendingartíma í kynningu á framboði sínu eins og framboð sem býður fram í öllum kjördæmunum sex.

Ég svaraði því til í andsvari við hv. þm. Skúla Helgason að ég teldi, alla vega miðað við þær upplýsingar sem ég hafði frá nefndaritara sem undirbjó breytingartillöguna, að hún væri skýr af því að í breytingartillögu meiri hlutans — sem ég styð varðandi kynningu á framboðum undir reglum Ríkisútvarpsins og ritstjórnarvaldi þess — er kveðið á um hlutfallstíma. Ef mín breytingartillaga verður samþykkt fellur hún inn í textann á réttum stað þannig að hlutfallstíminn á líka við í því sambandi. Ég vil taka því fram að sú breytingartillaga sem ég flyt er ekki gölluð að neinu leyti. Hún er alveg í anda þess sem við höfum rætt um, þ.e. þau framboð sem bjóða fram á landsvísu í öllum kjördæmum fái ákveðnar mínútur til að kynna stefnumál sín. Framboð sem bjóða fram í færri kjördæmum, til dæmis bara í einu, fengi þá 1 / 6 af útsendingartímanum. Ég vildi að þetta væri algerlega skýrt. Það eru engir annmarkar á tillögunni eins og hún lítur út núna.

Það sem ég vildi gera líka er að benda á að breytingartillagan sem ég hef flutt fellur ekki bara af himni ofan. Hún gengur út á að við förum ekki einungis í það að láta Ríkisútvarpið kynna framboðin með ritstjórnarvaldi sínu heldur veitum við líka framboðunum endurgjaldslausan útsendingartíma til að kynna stefnumál sín algerlega á sínum forsendum, þau geta þá einbeitt sér meira að því sem þau vilja segja og hugsanlega að kynna frambjóðendur sem eru kannski ekki þekktir.

Tillagan er byggð á því sem hefur verið að gerast í öðrum löndum og einnig því sem nýlega skipuð nefnd sem skipuð var í nóvember 2012, í lok síðasta árs, skilaði af sér fyrir hálfum mánuði, 27. febrúar 2013. Þetta er nefnd sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skipaði og Finnur Beck var formaður í. Í nefndinni voru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna og hún skoðaði niðurstöður Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. ÖSE var með kosningaeftirlit hér með alþingiskosningunum 2009 og gerði ýmsar athugasemdir við þær kosningar og kom með ábendingar. Ein ábendingin lýtur einmitt að því og í skýrslunni segir:

„Fjórða athugasemd eftirlitsnefndar ÖSE er því um að úthlutun endurgjaldslauss útsendingartíma til framboða mætti setja í lög til að tryggja samræmi í því hvernig staðið er að slíkri úthlutun milli kosninga.“

Nefndin skoðaði þetta og komst að því og leggur til að það verði gert og þess vegna hef ég flutt þessa breytingartillögu. Einn fjórði af skýrslunni er einungis um þetta eina atriði þannig að þetta vegur mjög þungt og er umfjöllunin á bls. 11–16. Þar eru færð rök fyrir því af hverju verið er að gera þetta og það er til þess að hjálpa nýjum og litlum framboðum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, bæði vegna málflutnings þeirra en líka vegna þess að þau hafa ekki úr miklum fjármunum að spila. Tiltekið er að þetta er gert í fjölmörgum löndum, í Belgíu, Tékklandi, Eistlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, Írlandi, Ítalíu og Lettlandi. Sums staðar er þetta meira að segja ekki bara skylda í ríkisfjölmiðlum heldur líka í einkafjölmiðlum þannig að hérna er ekki um neinn glaðning að ræða og ekkert sem fellur af himni ofan heldur bein ábending frá nefnd Finns Becks.