141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tekið er á þessu öllu í skýrslunni meira og minna. Varðandi framboð sem bjóða fram einungis í einu kjördæmi þá er það einmitt í breytingartillögunum nú þegar og er líka faktískt í minni breytingartillögu, að þau framboð fá bara hlutfallslegan tíma miðað við hvað þau bjóða fram á fáum eða mörgum stöðum. Ef framboð býður fram í einu kjördæmi þá fær það 1/6 af tímanum sem önnur framboð fá sem bjóða fram í öllum kjördæmum. Það er því ekkert mál að græja það.

Nefndin tekur líka á því varðandi hin minni framboð sem eru með litla peninga og geta þess vegna ekki kannski útbúið mjög flott kynningarefni. Þar segir:

„Nefndin telur því eðlilegt að Ríkisútvarpið leggi til aðstöðu og eftir föngum tækniþekkingu og tæknivinnu til framleiðslu kynningarefnis að því marki sem það telur sér það fært eftir því sem siða- og starfsreglur þess bjóða þannig að hlutlægni þess verði ekki dregin í efa.“

Það sé þá ekki þannig eins og Ríkisútvarpið gerist allt í einu mjög hentugt og hjálpi óeðlilega mikið einhverju einu litlu framboði en ekki einhverju öðru. Það þyrfti að setja reglur um það líka og væri ekkert mál að gera því það geta önnur lönd. Ég taldi upp runu landa áðan sem gera þetta.

En ég spyr, af því að hv. þingmaður er að finna eitthvað þessu til foráttu. Hvað vill þá hv. þingmaður gera? Á ekki að fela Ríkisútvarpinu að vera með kynningarefni undir sínu ritstjórnarlega valdi, á ekki að gera það? Á heldur ekki að gera Ríkisútvarpinu skylt að sýna kynningarefnið frá flokkunum endurgjaldslaust? Á þá bara að vera það fyrirkomulag að flokkarnir geti keypt sér hefðbundnar auglýsingar fyrir mikið fé? Sem þýðir þá að einungis hinir stóru sterku sem eiga mikla peninga geta auglýst þokkalega massíft og mikið og komið sér á framfæri en hinir minni komast ekkert að.

Mjög mikilvægt er í lýðræðissamfélagi að við hugsum um litlu framboðin. Hvernig komast þau inn í sjónvarpið með einhvers konar kynningarefni?