141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tækifærið og beita þriðja andsvari. Hv. þingmaður var að velta fyrir sér hvort ég væri að finna eitthvað til foráttu þessu máli sem hv. þingmaður og ég vorum að ræða áðan um hvernig megi tryggja einhvers konar jafnræði milli flokka og annarra sem bjóða fram í öllum kjördæmum og eftir atvikum í færri kjördæmum . Það er ekki það sem vakti fyrir mér. Ég var aðeins að velta þessu máli upp vegna þess að það er ekki alveg augljóst. Við getum séð svolítið afkáralega mynd af þessu þegar staða Ríkisútvarpsins er þannig að þeir töldu sig knúna, eða hvernig sem það var á sínum tíma, að sinna framboðum til stjórnlagaráðsins. Þá var það gert þannig að 500 frambjóðendur fengu að tala í belg og biðu á þeim tíma sólarhringsins þegar það truflaði ekki annað dagskrárefni Ríkisútvarpsins. Síðan gat Ríkisútvarpið lyft upp höndum og sagt: Við erum búnir að sinna okkar lýðræðislegu skyldu. Við erum búnir að gera alla Jóna jafna sem bjóða sig fram. En auðvitað var öllum ljóst að það var ekki þannig. Þetta var dálítil friðþæging af hálfu Ríkisútvarpsins sem var þar með búið að fullnusta þetta hlutverk fjölmiðils í almannaþágu og koma eins fram við alla, en það var auðvitað ekki þannig. Það voru stjörnurnar úr Silfri Egils og sjónvarpsþáttunum sem náðu miklum árangri eins og við munum eftir, enda hefur stundum verið sagt að þetta hafi ekki síst verið afrakstur slíkra sjónvarpsþátta, en nóg um það. Þetta er út af fyrir sig áhugaverð spurning en ekki stóra efni þessa máls.

Tíminn líður mjög hratt þegar verið er að ræða um þessa fjölmiðla. Fjölmiðlar breytast líka mjög hratt og við sem munum aftur í tímann munum þann tíma þegar hér var ein útvarpsrás. Á þeim tíma man ég eftir að vaskur ungur maður kom að máli við einn af forustumönnum Ríkisútvarpsins og kvartaði mjög undan því að Ríkisútvarpið væri svo hrútleiðinlegt. Þar væri engin tónlist spiluð utan laga unga fólksins nema sinfóníur. Þá var svarað skýrt og skilmerkilega: Þetta er rangt. Það er víst spilað margt annað en sinfóníur, til dæmis bæði prelúdíur og fúgur. Þetta má kannski segja að hafi í hnotskurn verið hið tónlistarlega uppeldi sem menn fengu og umræðan var auðvitað mjög mikið um.

Ríkisútvarpið hefur mikla sérstöðu. Það blasir við okkur öllum, enda ef Ríkisútvarpið hefði ekki þessa sérstöðu þá værum við ekki að ræða um heildarlög um þessa stofnun, því auðvitað er Ríkisútvarpið stofnun. Hún hefur haft mjög mikil áhrif í gegnum tímann, þó ég ætli að halda því fram að áhrif Ríkisútvarpsins í dag séu miklu minni en áhrif Ríkisútvarpsins voru áður fyrr. Gleggsta dæmið er frá árinu 1968 í sögulegum forsetakosningum þegar þjóðminjavörður, sem hafði verið með einn sjónvarpsþátt í viku eða hálfsmánaðarlega eða mánaðarlega eða hvað það var, um svo áhugavert efni sem fornminjar, varð landsfrægur maður og naut slíkrar hylli að það dugði til að þessi góði maður varð forseti Íslands, ekki bara út af þessu auðvitað en meðal annars út af þessu. Þó hann hafi haft alla burði og góða eiginleika til að gegna því starfi þá vissu allir að þessi sjónvarpsþáttur sem allir landsmenn horfðu á var auðvitað þessi mikli vettvangur. Ekkert slíkt mundi gerast í dag. Sjónvarpsþáttur af þessu taginu, sem yrði innan um alla hina sjónvarpsþættina á þessari sjónvarpsstöð ásamt öllum hinum sjónvarpsstöðvunum, hefur ekki sama vægi og gildi.

Auðvitað er það þessi breytti heimur sem Ríkisútvarpið þarf að takast á við og gríðarlega mikilvægt er við þessar aðstæður að Ríkisútvarpið fái aðhald. Áður ætluðu menn að tryggja þetta aðhald með pólitískri aðkomu, til dæmis í útvarpsráði og slíku þar sem átti að tryggja hlutleysi sem byggðist á því að fulltrúar stjórnmálaflokkanna sætu í útvarpsráði og tryggðu að fram færi fjölbreytt umræða og ekki væri verið að halla á einn eða einn. Hættulegast af öllu er einokun skoðana og í því hlýtur Ríkisútvarpið að þurfa að gegna mjög miklu hlutverki til þess að tryggja að fjölbreytileiki skoðana komi fram. Frelsið í útvarpsrekstrinum sem menn deildu um hér langtímum saman í sölum Alþingis fyrir tæpum 30 árum eða svo, ég man ekki nákvæmlega hvenær þetta kom á, er dæmi um hvernig þessi mál hafa þróast. Þá var deilt um hvort skynsamlegt og eðlilegt væri að hafa fleiri útvarpsstöðvar. Um það deilir enginn í dag og við erum öll sammála um að það sem hefur gerst, hvað sem öðru líður, er þó alla vega að fjölbreytnin í útvarps- og fjölmiðlarekstri er miklu meiri en áður. Það er meira val fyrir þá sem hlusta á útvarpið og að því leytinu er fjölbreytni.

Hins vegar er það fylgifiskur nútímaútvarpsreksturs, eins og við höfum séð, að þrátt fyrir þessa fjölbreytni að mörgu leyti þá hafa nýju stöðvarnar dálítið mikla tilhneigingu til einsleitni, þó undarlegt sé og kannski þversagnarkennt að segja það. Ég er að vísa til þess að þrátt fyrir fjölbreytni stöðvanna og þrátt fyrir að þær séu að útvarpa að sumu leyti fjölbreyttara útvarpsefni þá er tilhneiging í þá átt að ákveðnir kimar fjölmiðlaviðfangsefnisins, ef við getum orðað það þannig, verða útundan. Þar hlýtur Ríkisútvarpið að eiga að koma til skjalanna með sínar skyldur sem dagskrárfyrirbrigði, sem tæki okkar til að fylla upp í þetta þannig að fjölbreytnin sem við verðum að kalla eftir í útsendingum útvarpsins sé uppfyllt. Ég tel að það hljóti að vera vakandi yfir því sem Ríkisútvarpið er að gera allt um kring, að Ríkisútvarpið sé á varðbergi fyrir því sem er eðlilegt að fjallað sé um með margbreytilegum og sanngjörnum hætti og geti komið til skjalanna þar sem markaðurinn leysir það mál ekki.

Hér hefur verið mikið rætt um að Ríkisútvarpið hafi brugðist hlutverki sínu gagnvart landsbyggðinni. Ég hygg að þetta sé almenn upplifun á landsbyggðinni. Ríkisútvarpið og forsvarsmenn þess hafa náttúrlega þrætt fyrir það en þetta er hin almenna upplifun einfaldlega vegna þess að Ríkisútvarpið hefur tekið þá afstöðu að leggja niður svæðisútvarpsstöðvarnar. Þær voru á sínum tíma settar á laggirnar og réttlættar með því að þær væru aðferðin við að auka aðgengi fólks að því sem var að gerast úti á landsbyggðinni og setja ákveðna sýn, sjónarhorn og vinkil landsbyggðarinnar, ekki bara á þjóðmálaumræðuna heldur líka á þann þjóðlífsspegil sem landið okkar hlýtur alltaf að vera.

Alveg ljóst mál er að ögrunin við hina hefðbundnu fjölmiðla í dag er netið, hvort sem það er útvarp eða dagblöð. Við sjáum líka að það hefur kannski verið hvað mesta ögrunin fyrir útvarpsstöðvarnar. Þær höfðu tækifæri til að flytja okkur fréttirnar fyrst vegna þess að fréttatímar útvarpsins eru mörgum sinnum á sólarhring, en netið hefur verið að breyta því.

Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að Ríkisútvarpið hafi ekki sinnt þessum þætti eins vel og hægt er að gera. Þá vísa ég til þess að að mínu mati hefur sjónarhorn Ríkisútvarpsins á ýmis mál oft og tíðum verið býsna þröngt. Þar er ég meðal annars að vísa í þjóðfélagslega umræðu sem oft hefur verið út frá mjög þröngri þjóðfélagslegri sýn og líka í það sem ég sagði áðan varðandi landsbyggðina. Við hljótum líka að þurfa að velta fyrir okkur hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er til dæmis í því að kynna til sögunnar menningarlega fjölbreytni. Hefur Ríkisútvarpið sinnt því hlutverki nægilega vel? Hefur það verið framar öðrum stöðvum með flutningi á innlendu efni og svo framvegis? Við hljótum að gera stífari kröfur til Ríkisútvarpsins vegna sérstöðunnar, því við erum með sérstaka lagasetningu og mjög ítarlega markmiðssetningu í þessum lögum um hlutverk og skyldur, fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ég hef áhyggjur af því, eins og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir hefur verið að nefna, hvort þessi markmiðssetning, jafnítarleg sem hún er, sé nægilega skýr. Það er ekki áhlaupsverk að lesa sig í gegnum allar markmiðslýsingarnar sem eru á rúmlega einni og hálfri blaðsíðu í frumvarpsforminu. Eiginlega eru nefndir til sögunnar allir hlutir, sem gefur Ríkisútvarpinu heilmikið rými til að sinna tilteknu hlutverki. Að mínu mati hefði þurft að skerpa þessa sýn til að tryggja það sem ég var að reyna að halda fram. Ríkisútvarpið hefur meðal annars það hlutverk að koma til skjalanna þar sem markaðurinn er ekki að sinna því hlutverki sem við hefðum kosið að hann gerði, þótt að mörgu leyti hafi markaðurinn verið að lesa þessi mál ágætlega. Hér hefur oft verið nefnt dæmið þegar Ríkisútvarpið hefur kosið að draga úr áherslum á fréttir af landsbyggðinni þá hafa aðrar stöðvar, eins og Stöð 2 til dæmis, komið þar til skjalanna og séð markaðslegt tækifæri til að fara þar inn.

Spurt er hver staða Ríkisútvarpsins eigi að vera á auglýsingamarkaði. Þetta er erfið spurning, ég skal svo sannarlega viðurkenna það. Annars vegar rekst á sjónarmið að Ríkisútvarpið er ríkisstofnun. Hún hefur ákveðna fjárhagslega yfirburði í krafti þess að henni eru tryggðir margir milljarðar króna af fjármunum með lögþvingaðri innheimtu á gjöldum. Því er mjög eðlilegt að mínu mati að aðkoma Ríkisútvarpsins að auglýsingamarkaðnum sé takmörkuð. Hins vegar er ég íhaldssamur þegar kemur að Ríkisútvarpinu og vil ekki ganga svo langt að Ríkisútvarpið fari algerlega út af auglýsingamarkaði eða Ríkisútvarpið verði með mjög takmarkaðan þátt á auglýsingamarkaði, eins og sumir hafa krafist. Ég tel að takmarka þurfi hann frá því sem nú er, en hins vegar megum við aldrei gleyma því að auglýsingar hafa líka í sjálfu sér fréttagildi. Þær eru ákveðin aðferð við að miðla. Við sem erum til dæmis stjórnmálamenn eigum ekki marga möguleika ef við viljum vekja athygli á fundum sem við höldum. Það er okkar lýðræðislegi réttur að auglýsa þennan fund og það getum við meðal annars gert í gegnum Ríkisútvarpið.

Vinstri menn áður og fyrr voru mjög mótfallnir auglýsingum. Þeir töldu þær eitt ógeðslegasta birtingarform kapítalismans í heiminum þar sem ríkt fólk væri að reyna að hafa áhrif á hegðan annars fólks. Ég held að enginn í dag hér á Íslandi haldi neinu slíku fram. Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að auglýsingar eru líka tíðindi í sjálfu sér og þess vegna er ekki óeðlilegt að við höfum þann rétt að geta auglýst í Ríkisútvarpinu, en ágeng markaðsöflun í þessum efnum þar sem menn eru með niðurboð eða undirboð er auðvitað ekki líðandi, sérstaklega í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur þetta fjárhagslega forskot.

Virðulegi forseti. Ég tala aðeins um fjölbreytnina sem Ríkisútvarpið á að tryggja og mjög mikilvægt er að menn átti sig á því að þá er ég ekki eingöngu að tala um fjölbreytni sem snýr að hinni pólitísku umræðu eða þjóðmálaumræðunni. Ég er að tala um miklu víðtækari þátt í þessu sambandi þegar ég tala um þjóðmálaumræðuna.

Ég hóf umræðu mína á því að halda áfram orðaskiptum okkar hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að velta fyrir mér stöðu Ríkisútvarpsins, til dæmis þegar kemur að því að tryggja jafnræði skoðana í þeirri pólitísku umræðu sem núna fer í hönd. Þar getur Ríkisútvarpið bæði haft mikið hlutverk en það verður líka mjög vandasamt vegna þess að ekki er alveg einhlítt hvernig á að taka á þessu. Vandinn verður augljós þegar við höfum í huga að við gætum verið að upplifa kannski sem svarar í fjölda til tveggja knattspyrnuliða án markmanns, það eru 20 framboð sem gætu verið að bjóða fram í vor. Það hlýtur auðvitað að búa til dálítið sérstaka stöðu þegar kemur að því með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að kynna þessi framboð út frá jafnræði.

Virðulegi forseti. Að mörgu leyti er ýmislegt gott í þessu frumvarpi. Það sem ég tel að sé kannski lakast er að mér finnst sýnin á því hvað Ríkisútvarpið á í rauninni að gera út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef verið að tala um, einsleitni, fjölbreytni og sérstöðu, alls ekki nægilega markviss í markmiðslýsingu frumvarpsins, 3. gr. Þar hefðum við örugglega haft gott af því að skerpa aðeins línurnar.