141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og það sem kom fram í máli hans, þar var ýmislegt athyglisvert. Það kom fram að hann væri frekar íhaldssamur þegar kemur að Ríkisútvarpinu og því að það eigi ekki að fara algjörlega út af auglýsingamarkaði. Maður hefur heyrt frá mörgum félögum hv. þingmanns að þeir hafi viljað ganga lengra í þá veruna. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hver yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins sé í því efni. Er það yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins að RÚV eigi að fara algerlega af auglýsingamarkaði eða er það stefnan að takmarka það með einhverjum hætti? Hvar eigum við að draga línurnar í því efni? Var hv. þingmaður að viðra sínar persónulegu skoðanir eða stefnu Sjálfstæðisflokksins? Það væri gott ef hann gæti komið inn á það.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um stöðu landsbyggðarinnar og fréttaflutning af landsbyggðinni. Nú er meðal annars komið inn á það í frumvarpinu að eitt af hlutverkum Ríkisútvarpsins sé einmitt að sinna fréttum af mönnum og málefnum og því sem er að gerast um allt land. Telur hv. þingmaður að nægilega langt sé gengið í frumvarpinu eins og það er í dag eða að það þurfi að haga málum öðruvísi og þá hvernig? Hverju þurfum við að breyta í frumvarpinu varðandi fréttaflutning af landsbyggðinni? Það væri gott ef hv. þingmaður gæti komið inn á það því ég veit að hann hefur skoðanir á því og hefur m.a. spurt aðra þingmenn út í þau mál. Það væri fróðlegt að vita hver nákvæmlega skoðun hv. þingmanns er á þeim þætti.