141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson fjallaði áðan um áhrif Ríkisútvarpsins. Hann gaf það sterklega í skyn að þjóðin hefði kosið Kristján Eldjárn sem forseta á sínum tíma vegna fjölmiðlaumfjöllunar og aðkomu hans að fjölmiðlum, það hefði ekki verið vegna mannkosta hans sem þjóðin hefði þá lagt mat á og valið hann með þá í huga.

Einnig gaf hv. þingmaður í skyn að þingmenn sem nú sitja á þingi hefðu verið valdir að hluta til í það minnsta vegna aðkomu þeirra að fjölmiðlum en ekki út af öðru. Mér finnst hv. þingmaður ganga ansi langt í því að kalla þjóðina fífl, þ.e. að hún gæti ekki valið sér forseta eða þingmenn öðruvísi en í gegnum fjölmiðla. Vill hv. þingmaður banna með einhverjum hætti aðkomu einstaklinga að fjölmiðlum og þá með hvaða hætti?

Hv. þingmaður talaði einnig eins og laga þyrfti dagskrána í útvarpinu, hafa áhrif á dagskrárvald. Á þingið að hafa áhrif á dagskrá Ríkisútvarpsins, um hvað Ríkisútvarpið fjallar hverju sinni, um fréttaskýringar? Ætlar Alþingi að fara að hlutast til um það eftir því hvernig það er skipað hverju sinni hvernig og hvers konar fréttir eru fluttar og hvaða þættir eru á dagskrá? (Gripið fram í.) Hver er afstaða hv. þingmanns til annarra mannaráðninga en þess sem hann nefndi áðan, að einum starfsmanni Ríkisútvarpsins hefði verið sagt upp? Fylgist þingmaðurinn og kannski Sjálfstæðisflokkurinn með því hvernig starfsmannahaldi á Ríkisútvarpinu er háttað hverju sinni? Hefur hv. þingmaður og þá kannski þingflokkurinn sömuleiðis ályktað um eitthvað slíkt, t.d. hvaða starfsmenn eigi að vera þarna og hverjir ekki? Ber að fagna uppsögnum hjá sumum? Ber að harma aðrar o.s.frv.? Mér finnst það alveg dæmalaus umræða sem fer fram um Ríkisútvarpið og dæmalaus forræðishyggja sem fram kemur í ræðum margra þingmanna, ekki eingöngu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar áðan. Ég hefði satt best að segja ekki trúað því að maður ætti eftir að hlusta á slíka vitleysu eins og verið hefur í umræðum í dag hvað þetta varðar í hverri ræðunni á fætur annarri.