141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:02]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði það áðan og tók það sem dæmi um áhrifamátt Ríkisútvarpsins að þekktur einstaklingur í sjónvarpi hefði verið kjörinn forseti. Hann gaf það þar með í skyn að það væri af þeim ástæðum sem hann hefði náð þeim framgangi. Til að undirstrika fábreytni þess tíma þá tók hann dæmi úr nútímanum, um nýkjörið þing, að þing sem kjörið var 2009 mætti að hluta til rekja til þess að menn hefðu átt aðkomu og aðgang að ákveðnum sjónvarpsþáttum. Hann tiltók þá sjónvarpsþætti meira að segja og sagði að það hefði haft áhrif á að menn næðu inn á þing.

Hv. þingmaður lýsti einnig skoðun sinni á ákveðnum mannabreytingum hjá RÚV. Hann tók sem dæmi eina uppsögn. Þess vegna spyr ég: Hefur hv. þingmaður og flokkur hans þá ályktað eitthvað í þá veru hvaða starfsmenn eigi að starfa við RÚV og hverjir ekki? Hefur áður verið tekin afstaða til mannabreytinga á fréttastofu Ríkisútvarpsins? Hyggst hv. þingmaður beita sér fyrir því að pólitísku valdi (Forseti hringir.) verði beitt með þeim hætti að geta haft áhrif á mannaráðningar á Ríkisútvarpinu? (JónG: Við viljum færri Samfylkingar- og VG-liða …)