141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, og segir það nokkuð um innihald málsins. Hlutverk þessarar stofnunar er ansi mikilvægt þótt vissulega hafi orðið ákveðnar breytingar á starfsumhverfi hennar og breytingar í fjölmiðlun á undanförnum árum og samfélagið þarf auðvitað að laga sig að því.

Í 3. gr. frumvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu er komið inn á þær reglur sem eiga að gilda um Ríkisútvarpið. Þar segir:

„Fjölmiðlaþjónusta Ríkisútvarpsins í almannaþágu hefur það markmið að mæta lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum í íslensku samfélagi með miðlun texta, hljóðs og mynda.“

Þarna erum við í raun að skilgreina það hlutverk sem stofnunin á að hafa með höndum og það er nokkuð víðtækt samkvæmt þessari grein. Maður veltir því fyrir sér hversu langt eigi að ganga í þessu og hversu langt eigi að ganga á þessum mismunandi vettvangi sem fjölmiðlun nær til. Það segir einnig í þessari sömu grein að Ríkisútvarpið skuli dreifa efni til alls landsins og næstu miða með að minnsta kosti tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring.

Hér hefur verið rifjað upp hvernig þetta var fyrir ekki svo margt löngu. Ég tel mig ekki vera orðinn mjög gamlan en þó man ég eftir því að það var bara ein útvarpsstöð og þar voru þessir föstu þættir sem enn er stundum vitnað til eins og Lög unga fólksins, Óskalög sjómanna og útvarpsleikrit á fimmtudagskvöldum. Þetta man maður allt saman og þetta hefur auðvitað breyst gríðarlega mikið. Það eru komnar fleiri stöðvar bæði í sjónvarpi og í útvarpi. Það er orðið miklu einfaldara að dreifa efninu og við eigum eftir að sjá það verða enn einfaldara í framtíðinni. Stofnun eins og Ríkisútvarpið þarf að vera í þróun og skoðun á hverjum tíma. Maður veltir því fyrir sér hvort raunveruleg nauðsyn er á því að reka tvær útvarpsstöðvar og eina sjónvarpsstöð og hvort það megi á einhvern hátt breyta þessu rekstrarformi.

Á nýliðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins var einmitt lagt til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil yrði endurskilgreind og starfsemi hans breytt ef ástæða væri til. Það er oft talað um mikilvægi menningarhlutverks Ríkisútvarpsins og það er vissulega mikið. Í frumvarpinu segir að Ríkisútvarpið skuli sinna því með mjög ákveðnum hætti. Ég get tekið undir það. Ég held að ákveðin íhaldsemi sé mikilvæg þar, í útvarpi og sjónvarpi, að til séu stöðvar sem eru kannski ekki alltaf þær vinsælustu.

Hlutverk Ríkisútvarpsins á þeim vettvangi er ítarlega skilgreint og það á að sinna ákveðnum grunnþáttum. Í frumvarpinu segir að það eigi meðal annars að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar, vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða, kynna margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrði í landinu, miðla upplýsingum og veita landsmönnum innsýn í alþjóðamál, mismunandi menningarheima og ólík sjónarmið. Það á að framleiða sjálft og í samstarfi við aðra lista- og menningarefni, með sérstakri áherslu á leikið efni, auk þess að endurspegla samtímamenningu þjóðarinnar og skal vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð.

Þegar við horfum á þessar tillögur kemur upp í hugann sú spurning hvort Ríkisútvarpið hafi sinnt mörgum af þessum þáttum mannlífsins og þjóðfélagsins með fullnægjandi hætti. Er til dæmis nægilega mikið svigrúm gefið í dagskrá ríkissjónvarpsins fyrir almenna umræðu og aðeins dýpri umræðu um hin fjölbreyttustu mál, t.d. mörg af þeim fjölbreyttu málum sem við fjöllum um í þinginu? Það eru helst einn eða tveir þættir sem eru gefnir í dagskrá sjónvarpsins í viku hverri sem sinna þessu, þ.e. annars vegar Kastljós og hins vegar þátturinn Silfur Egils sem er sýndur yfir vetrartímann á sunnudögum þar sem fer fram aðeins dýpri umræða og skoðanaskipti. Síðan sjáum við að samhliða ríkissjónvarpinu hafa sprottið upp stöðvar sem sinna því af svolítið meiri kostgæfni að fara dýpra í málin. Við erum með stöðvar eins og ÍNN sjónvarpstöðina þar sem mál eru greind betur og gefinn lengri tími, þó ekkert langur tími, kannski 25–30 mínútur, til að fara dýpra í ákveðin mál. Þetta vekur upp spurningu um hvort áherslurnar séu réttar.

Oft hefur verið talað um að íslenskt efni sé tiltölulega dýrt, en er það svo dýrt? Er það svo dýrt að vera með slíka þætti sem eru teknir upp í stúdíói og þarfnast lítils undirbúnings? Þær útvarps- og sjónvarpsstöðvar sem eru reknar á þeim grunni að fjalla ítarlega um þjóðmálaumræðuna og mál sem eru efst á baugi hverju sinni eru mjög einfaldar í allri útfærslu, sáraeinfaldar. Það er nánast eins og verið sé að taka þetta upp með þremur, fjórum myndavélum heima í stofu. Það er ekki flóknara umhverfi en það. Öll tækni í kringum sjónvarp og allt umfangið hefur breyst svo gríðarlega mikið á ekki mörgum árum og á eftir að breytast enn meira.

Ég held því að það sé alveg rétt sem kemur fram í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins að það þurfi einmitt að skoða þessa þætti. Það þarf að fara betur ofan í það hvort ríkissjónvarpið keppir of mikið á hinum almenna afþreyingarmarkaði og hvort það eigi að einbeita sér meira að þjóðlegri þáttum, ef við getum orðað það svo, og þeim kynningum sem ég fór yfir áðan sem geta átt við mjög breiðan vettvang.

Þegar maður horfir á þróunina hlýtur líka að koma upp í hugann rekstrarumfang fyrirtækisins og hvort við séum alveg á réttri leið þar. Útvarpshúsið við Efstaleiti, þessi glæsilega bygging, er hún barn síns tíma? Tekur þetta rekstrarform mögulega til sín of mikinn kostnað, í daglegum rekstrarkostnaði, starfsmannafjölda og öllum umbúðum á kostnað þess að geta eflt frekar innlenda dagskrárgerð? Mætti jafnvel gera sjónvarpið að minni þátttakanda til að það þyrfti ekki að taka til sín allt þetta fé sem raun ber vitni? Þetta er auðvitað heilmikill skattur þegar upphæðin er orðin um 18–19 þús. kr. á ári sem hver lögráða einstaklingur þarf að greiða.

Ég held að þetta sé vinna sem megi fara fram, að skoða betur hvar áherslurnar eigi að liggja. Ég get tekið sem dæmi: Er það aðalatriði að ríkissjónvarpið sé að keppa mjög um beinar útsendingar á íþróttaleikjum erlendis? Þá undanskil ég landsleiki sem mér finnst að eigi erindi í ríkisfjölmiðlana undantekningarlaust. Og þessir íþróttapakkar og samkeppnisumhverfið, erum við á réttri leið þar? Eru komnar upp þær aðstæður í íslensku samfélagi að þetta afþreyingarefni eigi betur heima á öðrum sjónvarpsstöðvum og geti styrkt jafnvel rekstrargrunn þeirra, aukið samkeppnina á þeim markaði og gefið kannski fleirum tækifæri til að starfa?

Dreifing sjónvarpsefnis er að verða og verður miklu einfaldari eins og ég sagði áðan. Nýlega sat ég fund með fulltrúum fyrirtækja sem voru að kynna fyrir okkur möguleikana á því að ljósleiðaravæða allt landið. Þetta er alls ekki svo fráleit hugmynd, að fara hreinlega heim á hvern sveitabæ. Til einhvers tíma litið er það alls ekki svo kostnaðarsamt. Auðvitað kostar þetta ákveðið mikið en það væri alger bylting (Gripið fram í: Rétt.) og hefði ekki bara í för með sér að það væri hægt að útvarpa og sjónvarpa með þessari tækni heldur mundi þetta bylta öllum starfsháttum í sveitum landsins. Það er auðvitað þáttur í þessu. Þetta mundi á sama tíma gefa fleirum tækifæri til að dreifa sínu efni og draga verulega úr umfangi og rekstri ríkissjónvarpsins sem rekur sitt eigið dreifikerfi hringinn í kringum landið. Þarna væri þetta bara allt komið í línu beint heim í hús hvar sem við værum. Öryggið mundi aukast mjög mikið við það.

Ég held að á grunni þessa alls getum við sagt að full ástæða sé til að taka undir það sem segir í samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins um þessi mál. Við verðum að vera tilbúin, með opnum huga, að skoða þennan vettvang ríkisfjölmiðlanna í framtíðinni. Er til dæmis ástæða til að Ríkisútvarpið reki Rás 2? Er ástæða til þess? Ég spyr. Eða mætti láta öðrum það eftir og setja þrengri ramma utan um þær skilgreiningar sem ég fór yfir áðan og undanskilja það rekstri ríkisfjölmiðilsins?

Auglýsingamarkaðurinn er síðan alveg sérkapítuli. Ég hef nokkra reynslu af því þar sem ég var yfirmaður auglýsingadeildar Stöðvar 2 þegar hún fór í loftið árið 1986. Ég var í nokkur ár yfir þeirri deild og var í því að leiða samkeppnina gegn ríkisfjölmiðli sem hafði verið í algeru einokunarsæti fram að því. Ég hef mikinn skilning á stöðu þeirra fjölmiðla sem keppa við ríkissjónvarpið sem hefur gríðarsterka tekjustofna og það var mjög óvægið í þeirri samkeppni sem enginn rammi var utan um á þeim tíma og mikil ósanngirni ríkti á þeim markaði á upphafsárum fjölmiðlabyltingarinnar í kringum 1985–1986. Það má margt af því læra.

Auglýsingar eru reyndar upplýsingamiðill, eru ákveðnar fréttir og neytendur eiga auðvitað rétt á því að sjá auglýsingar og auglýsendur eiga rétt á því að geta notað þá fjölmiðla sem um er að ræða þannig að meðalvegurinn er vandrataður í þessu. Það þarf að vera ákveðinn rammi utan um auglýsingar í ríkisfjölmiðlum eða þeim fjölmiðlum sem starfandi eru. Það þarf klárlega að tryggja að samkeppnisstöðu sé ekki raskað og passa mjög vel upp á það vegna þess að við viljum jú viðgang og eflingu frjálsrar fjölmiðlunar í landinu áfram (Forseti hringir.) og viljum að sú starfsemi eigi eftir að styrkjast og það eru allar aðstæður til þess.