141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans, ég tek undir ýmislegt í hans máli en þó kannski ekki allt. Ég vil taka sérstaklega undir að ljósleiðaravæðingin er spennandi verkefni og gæti haft gríðarlega mikil jákvæð áhrif á fjarskipti og fjölmiðlastarfsemi og þá möguleika sem snúa að landsbyggðinni í því efni. Ég tek undir með hv. þingmanni um það.

Hv. þingmaður fjallaði um auglýsingamarkaðinn og ég hef aðeins fylgst með umræðunni í dag og nokkrir félagar hans hafa komið inn á það. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ganga hart fram hvað þennan þátt snertir.

Hv. þingmaður hefur reynslu af auglýsingamarkaði og starfsreynslu áður en hann gerðist þingmaður og ég vil spyrja hann um það sem ég spurði félaga hans um áðan, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, hver stefna Sjálfstæðisflokksins væri um að setja Ríkisútvarpinu takmörk á auglýsingamarkaði. Hver er stefna hv. þingmanns í þessu efni?

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði um þetta áðan og sagðist sjálfur vera fremur íhaldssamur í þessu og vildi ekki ganga of langt í því að takmarka möguleika Ríkisútvarpsins á því að starfa á auglýsingamarkaði. Hann sagði þó að um þetta væru mjög skiptar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins. Mig langar að spyrja hv. þingmann hver sé skoðun hans á þessu og hvort hann meti það svo að stefna Sjálfstæðisflokksins sé sú að RÚV eigi algerlega að fara út af auglýsingamarkaði eða RÚV eigi að hafa þennan möguleika áfram. Hversu mikið á að takmarka möguleika Ríkisútvarpsins til að starfa á auglýsingamarkaði? Hvar liggja mörkin í þessu efni?