141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef Sjálfstæðisflokkurinn réði einn, svo ég slái aðeins á létta strengi, geri ég ráð fyrir því að við mundum endilega vilja halda í ríkissjónvarpið og hafa það svolítið sem okkar fjölmiðil. (Gripið fram í.) En að því slepptu langar mig að vitna í samþykkt á nýlegum landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem segir eftirfarandi:

„Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og RÚV verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna.“

Ég held að þetta sé kannski mergurinn málsins. Ég get verið alveg sammála hv. þingmanni um að Ríkisútvarpið gegni gríðarlega mikilvægu hlutverki í dag, í menningarlegu tilliti, í upplýsingalegu tilliti með sína öflugu fréttaveitu, jafnvel öryggislegu tilliti í ákveðnum tilfellum þótt reynslan hafi sýnt okkur að hinir frjálsu fjölmiðlar hafi komið alveg jafnsterkir inn og Ríkisútvarpið á erfiðum stundum, þegar erfiðir hlutir hafa verið að gerast í samfélagi okkar. Þetta er auðvitað allt spurning um skilgreiningu. Ég tel að tryggja verði stöðu allra þessara þátta innan fjölmiðlunar. Spurningin er hvort ríkið sé endilega besti aðilinn til að gera það. Eins og staðan er í dag er það þannig en það má velta fyrir sér hvort ríkið geti stutt starfsemi frjálsra fjölmiðla með því að styðja við það að þeir sinni þessu hlutverki. Það er þetta sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins á við. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktar ekki að við eigum að selja ríkisfjölmiðlana. Það hefur verið pólitík yngra fólks, ungir sjálfstæðismenn eru eins og við segjum svona á tyllidögum samviska flokksins að mörgu leyti. Auðvitað stendur flokkurinn almennt fyrir frelsi í viðskiptum og rekstri (Forseti hringir.) en það voru ekki áherslur landsfundarins í þessu efni heldur miklu frekar að við gerum okkur grein fyrir því, förum bara djúpt ofan í það, (Forseti hringir.) hvort við séum á réttri leið og séum að verja peningum skattborgaranna með sem hagkvæmustum hætti fyrir land og þjóð (Forseti hringir.) á þeim grunni að þessum verkefnum sé sinnt.