141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og get tekið undir með honum, sannarlega er nú þegar að gerast að sérstaklega yngri kynslóðir horfa mjög lítið á ríkissjónvarpið. Þær velja sér það efni sem þær vilja horfa á á netinu og horfa kannski bara ekkert á sjónvarp. Þess vegna getur vel verið rétt hjá hv. þingmanni að frumvarp árið 2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sé þeim annmarka háð að það muni ekki geta keppt við þá tækni og þann raunveruleika sem yngstu kynslóðir okkar upplifa nú þegar.

Víða um land, og ég hef farið inn á það í mínum ræðum, þá getur Ríkisútvarpið ekki verið fjölmiðill í almannaþágu einfaldlega vegna þess að þar sést ekkert ríkissjónvarp og jafnvel útvarpið heyrist illa. Ég hef bent á að tryggja þurfi ljósleiðaratengingu heim til allra. Þangað til það gerist þá mun enginn sem ekki nýtur slíkrar tækni í dag geta valið sér efni af netinu eða náð sér í efni. Þá eru menn enn þann dag í dag, árið 2013, bundnir við að helst er það ríkissjónvarpið eða ríkisútvarpið sem næst, heyrist eða sést. Getur hv. þingmaður ekki verið sammála mér um að helsta verkefnið sé að tryggja að Ríkisútvarpið sé fjölmiðill í almannaþágu? Að tryggja tæknina hvað þetta varðar en minna kannski hafa áhyggjur af því að við séum fljótlega komin með úrelt lög um rammann sem á að framkvæma innan stofnunarinnar.