141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Þegar komið er að síðari ræðu í þessu máli er spurning um að leggja áherslu á nokkur atriði. Ég vil byrja á því að ítreka að mér heyrist frá flestum sem hér hafa talað að þeir telji Ríkisútvarpið hafa ákveðnu hlutverki að gegna, þó að eðlilega megi skynja mismunandi áherslur í málinu. Ég er ekki sammála mörgu sem fram hefur komið hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu hvað varðar auglýsingamarkaðinn, hlutverk RÚV og þess háttar, en það er svo sem ekkert nýtt að þessir tveir flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, séu ekki endilega sammála um Ríkisútvarpið frekar en margt annað.

Ég lít svo á að hér sé um að ræða mál sem er að mörgu leyti til bóta fyrir stofnunina þó að ákveðnum spurningum sé ósvarað. Það eru meðal annars vangaveltuspurningar sem hafa komið upp varðandi aukin útgjöld ríkissjóðs vegna stofnunarinnar og ýmislegt þess háttar sem bíður framtíðarinnar að takast á við. Til að standa undir væntingum og öðru slíku þurfa menn vitanlega að standast þær freistingar að taka hluta af þessum mörkuðu tekjustofnum í eitthvað annað. Við þekkjum svo sem ágætlega frá vegamálum að ekki allt ratar þangað sem það á að rata, en þetta er kannski betur skýrt með þessa ágætu stofnun.

Ríkisútvarpið á að mínu viti að vera fyrir alla landsmenn eins og talað er um í kaflanum um hlutverk þess. Það á að sjálfsögðu að sinna menningarlegu og sögulegu hlutverki og mjög æskilegt er að Ríkisútvarpið geti rekið miðlun upplýsinga og frétta með hlutlausum, góðum og vönduðum hætti. Auðvitað er mikilvægt að feta hinn gullna meðalveg þegar stofnanir hafa slíkt veigamikið hlutverk. Því er mikilvægt að stjórnendur og þeir sem ráða för hjá Ríkisútvarpinu hafi slíkt í huga og efast ég ekki um að þar séu menn að gera sitt besta. Í það minnsta hef ég fulla trú á að menn munu reyna að gera það.

Ég held líka að ágæt umræða hafi farið fram hér um hlutverk Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég lít ekki á það sem skoðun mína því ég held að mikilvægt sé að RÚV sé þar áfram. Eins og með annað er þó eðlilegt að velta fyrir sér hversu langt á að ganga. Ég vek aftur athygli á því að ekki eru auglýsingar á vef Ríkisútvarpsins sem er mjög vinsæll vefur. Maður sér á fréttavefjum samkeppnisaðila, ef má orða það þannig, 365, Morgunblaðsvefnum og fleirum, að mikið pláss er notað undir auglýsingar og þætti kannski einhverjum nóg um, þegar verið er að reyna að lesa fréttir eða það efni sem verið er að miðla þar.

Ég vil líka ítreka að ég fagna því að hér séu yfirlýsingar um að Ríkisútvarpið eigi að einbeita sér mjög að því að kaupa og styrkja innlenda framleiðslu. Mikilvægt er fyrir þá aðila sem framleiða íslenskt efni, svo ég nefni bara dæmi, menningarlega þætti, kvikmyndir og svo framvegis, að vettvangur sé til að koma því þá á framfæri. en að sjálfsögðu er ráðlegt að menn geri kröfur um gæði og þess háttar.

Að mínu viti ætlum við og verðum við að standa vörð um Ríkisútvarpið sem stofnun, og það kemur nú fram í ræðum marga þingmanna hér. Við gerum eðlilegar kröfur og munum að sjálfsögðu fylgja þeim eftir. Afar mikilvægt er að pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu eða öðrum fjölmiðlum, sem eru reknir sem hluti af lýðræðissamfélaginu og eru ekki undir hælnum á einum eða neinum, eiga að sjálfsögðu ekki að eiga sér stað og það á ekki heldur að vera með Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið á því ekki að eiga allt undir því að stjórnvöld á hverjum tíma horfi til fjármála eða fjárhagsstöðu þess með einhverjum hætti og reyni að stjórna í gegnum það.